Körfubolti

Boston Celtics í úr­slit eftir spennu­trylli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jimmy Butler og Jayson Tatum fóru fyrir sínum liðum í nótt.
Jimmy Butler og Jayson Tatum fóru fyrir sínum liðum í nótt. Andy Lyons/Getty Images

Boston Celtics vann Miami Heat með fjögurra stiga mun í oddaleik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA. Lokatölur 96-100 í Miami og Boston Celtics því á leið í úrslit NBA-deildarinnar í fyrsta sinn síðan 2011.

Leikur sjö, oddaleikur og allt undir. Spennan var gríðarleg fyrir leik næturinnar og mögulega aðeins of mikil fyrir leikmenn heimaliðsins sem byrjuðu vægast sagt illa á meðan gestirnir frá Boston fóru mikinn í upphafi leiks.

Gestaliðið var nokkuð snemma leiks komið þrettán stigum yfir og leikmenn Miami Heat áttu fá svör, stefndi í að Boston myndi vinna nokkuð þægilegan sigur á þeim tímapunkti.

Jimmy Butler fór fyrir sínum mönnum en hann skoraði 24 stig í fyrri hálfleik. Með því tókst Miami að minnka muninn niður í aðeins sex stig í hálfleik, staðan þá 49-55.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri og um miðbik þriðja leikhluta voru gestirnir aftur komnir með meira en tíu stiga forystu. Heimamenn voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og í upphafi fjórða leikhluta tókst Butler að minnka muninn niður í þrjú stig.

Aftur sveiflaðist pendúllinn og Boston tók öll völd á vellinum áður en Miami gerði lokatilraun til að stela sigrinum undir lokin. Butler fékk tækifæri til að taka forystuna fyrir Miami í stöðunni 96-98 en þriggja stiga skot hans geigaði og Boston skoraði síðustu tvö stig leiksins.

Lokatölur í Miami 96-100 og Boston Celtics komið í úrslit NBA-deildarinnar í fyrsta sinn síðan 2011. Þar bíða Golden State Warriors sem fóru létt með Dallas Mavericks í úrslitaleik Vesturdeildarinnar.

Hjá heimamönnum skoraði Jimmy Butler 35 stig ásamt að taka 9 fráköst. Hann spilaði allar 48 mínútur leiksins. Þar á eftir kom Bam Adebayo með 25 stig og 11 fráköst og Kyle Lowry skoraði 15 stig og tók 7 fráköst.

Hjá Boston var Jayson Tatum stigahæstur með 26 stig ásamt því að taka 10 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Þar á eftir komu Jaylen Brown og Marcus Smart með 24 stig hvor. Brown tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar á meðan Smart tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×