Lífið

Ray Liotta látinn

Árni Sæberg skrifar
Ray Liotta varð aðeins 67 ára gamall.
Ray Liotta varð aðeins 67 ára gamall. Jamie McCarthy/Getty Images

Stórleikarinn Ray Liotta er látinn 67 ára að aldri.

Liotta lést í Dóminíska lýðveldinu þar sem hann var við tökur á kvikmyndinni Dangerous waters.

Dægurmálamiðillinn TMZ hefur eftir heimildarmanni sínum sem var náinn leikaranum að hann hafi andast í svefni og að ekki sé uppi grunur um að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Leikarinn var þekktastur fyrir leik sinn í kvikmynd Martins Scorcese Goodfellas, sem er af mörgum talin ein besta mafíósamynd allra tíma. Liotta fór með hlutverk aðalpersónunnar Henry Hill og skaut túlkun hans á glæpamanninum harðsvíraða honum upp á stjörnuhimininn.

Stiklu úr Goodfellas má sjá í spilaranum hér að neðan en auðvitað ættu allir kvikmyndaáhugamenn að smella kvikmyndinni í tækið í kvöld.

Þá lék Liotta einnig í myndum á borð við Field of dreams ásamt Kevin Costner, Hannibal, og Revolver.

Á síðustu árum hefur verið nokkur uppgangur í ferli Liotta en hann hefur leikið í Marriage story og The many saints of Newark á síðustu þremur árum. Þá eru tvær kvikmyndir og ein þáttaröð í eftirvinnslu og hann vann að tökum á þremur kvikmyndum til viðbótar þegar hann lést.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.