Handbolti

„Kári var að atast í mér í sextíu mínútur“

Sindri Sverrisson skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson og félagar í Val nutu sín í botn síðast þegar þeir mættu ÍBV á Hlíðarenda en töpuðu svo í Eyjum.
Einar Þorsteinn Ólafsson og félagar í Val nutu sín í botn síðast þegar þeir mættu ÍBV á Hlíðarenda en töpuðu svo í Eyjum. vísir/Hulda Margrét

Það verður heitt í kolunum á Hlíðarenda í kvöld þegar einvígið um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla heldur áfram.

Einar Þorsteinn Ólafsson er að kveðja Olís-deildina í handbolta til að hefja atvinnumannsferilinn en fyrst ætlar hann að verða Íslandsmeistari með því að vinna ÍBV.

Einar og félagar í Val ætla sér sigur í þriðja leik einvígisins, á Hlíðarenda í kvöld klukkan 19.30. Þessi efnilegi og góði varnarmaður settist niður með Stefáni Árna Pálssyni, umsjónarmanni Seinni bylgjunnar, og viðtalið allt má sjá á Stöð 2 Sport fyrir leik.

Klippa: Einar Þorsteinn um rimmuna við ÍBV

Valur hafði algjöra yfirburði í fyrsta leik einvígisins en ÍBV vann mikinn seiglusigur í Eyjum á sunnudaginn og jafnaði metin í einvíginu. Vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari.

Reyna að láta leikinn ekki æsa sig upp

Valsmenn töpuðu boltanum óvenju oft í Eyjum og Einar tekur undir að það megi ekki gerast aftur:

„Í hita leiksins gerast svona hlutir. Snorri [Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals] var búinn að segja, og strákarnir, að það sem vinnur seríuna er að hafa ekki svona marga tapaða bolta. Við töpuðum leiknum líklega út af því og við ætlum að gera mikið betur næst. Reyna að láta leikinn ekki æsa okkur upp,“ sagði Einar.

Hann var ekki sammála því að það hefði frekar verið þannig að Valsmenn hefðu tapað leiknum en að Eyjamenn hefðu unnið hann.

„Eyjamenn voru rosalega góðir. Kári [Kristján Kristjánsson] var frábær, að atast í mér í sextíu mínútur, og það er alvöru verkefni að dekka „basicið“ þeirra. Skotin þeirra voru flott. En við vorum yfir og töpuðum því,“ sagði Einar.

Nánar er rætt við Einar í upphitun Seinni bylgjunnar sem hefst klukkan 18:50 á Stöð 2 Sport. Leikurinn sjálfur hefst í beinni útsendingu klukkan 19:30.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.