Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, varaþingmanns Samfylkungarinnar.
Fyrirspurn Rósu var í fjórum liðum þar sem hún spurði eftirfarandi spurninga:
- Hversu háa upphæð greiddi íslenska ríkið fyrir flutning á hergögnum til notkunar í Úkraínu?
- Hvers konar hergögn voru flutt og hversu stórt var hlutfall hergagna af sendingunni?
- Hvers konar búnaður annar var með í flutningnum?
- Er áætlað að fara í meiri og fleiri flutninga á hergögnum og búnaði til Úkraínu?
Greint var frá því í apríl síðastliðnum að Ísland hefði að undanförnu haft milligöngu um flutning á hergögnum frá ýmsum Evrópuríkjum til notkunar í Úkraínu.
Nákvæmar upplýsingar um sendingarnar eru trúnaðarmál
Í svari Þórdísar Kolbrúnar kemur fram að íslenska ríkið hafi um miðjan maí verið búið að greiða rúmlega 125 milljónir króna, fyrir flutning á búnaði, fyrst og fremst hergögnum, til notkunar í Úkraínu.
Þar kemur einnig fram að mikill meirihluti sendinganna séu hergögn, fyrst og fremst skotfæri en einnig annar búnaður.
Nákvæmar upplýsingar um farminn séu þó trúnaðarmál en í svarinu er vísað til ákvæði upplýsingalaga sem heimilar stjórnvöldum að takmarka aðgengi almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir séu undir.
Þó nefni Þórdís Kolbrún að upplýsingar um farminn liggi fyrir í ráðuneyti hennar, og að hægt sé að kynna þær utanríkismálanefnd Alþingis í trúnaði.
Í svarinu kemur einnig fram að íslensk stjórnvöld hafi upplýst bandalagsríki sín um vilja til þess að halda áfram sínum framlögum með því að styðja og annast flutninga búnaðar og hergagna vegna átakanna í Úkraínu.
Ákvarðanir um frekari flutninga ráðist af framvindu stríðsins og beiðnum bandalagsríkja.
Rússneska sendiráðið lýsti óánægju með sendingarnar
Rússneska sendiráðið í Reykjavík sendi sér yfirlýsingu í mars þar sem lýst var óánægju með að íslensk stjórnvöld taki þátt í að sjá til þess að hergögn berist til Úkraínu.
Þar var vísað til þess að rússnesk yfirvöld áskilji sér rétt til þess að líta áutanaðkomandi, erlendan herfarm í Úkraínu sem lögmætt skotmark.