Handbolti

Kristján Örn meðal þriggja bestu í Frakk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristján Örn er ein besta hægri skytta Frakklands.
Kristján Örn er ein besta hægri skytta Frakklands. Twitter@pauchandball

Íslenski landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson er einn þriggja leikmanna sem tilnefndir eru sem besta örvhenta skytta frönsku úrvalsdeildarinnar.

Kristján Örn, eða Donni eins og hann er nær alltaf kallaður, hefur átt frábært tímabil með Aix sem situr í dag í þriðja sæti frönsku úrvalsdeildarinnar með 40 stig, aðeins stigi á eftir Nantes sem er í öðru sætinu. Stórlið París Saint-Germain er á toppi deildarinnar með 52 stig.

Donni hefur farið mikinn í liði Aix og hefur skorað 126 mörk til þessa. Er hann 14. markahæsti leikmaður deildarinnar. Íslenski landsliðsmaðurinn hefur skorað mun meira en hinar tvær skytturnar sem koma til greina.

Sergiy Onufriyenko, leikmaður Chartres og úkraínska landsliðsins, hefur skorað 90 mörk á meðan og Alexandre Tritta, leikmaður Chambéry, hefur skorað 90 mörk.

Þá er Donni einnig einn af þeim 29 leikmönnum sem kemur til greina sem leikmaður ársins í Frakklandi. Kosningin fer fram á vefsíðu frönsku úrvalsdeildarinnar og er opin til 30. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×