Körfubolti

Hörður um Jimmy Butler: „Til­búinn að kvitta undir þann reikning núna og éta þann sokk“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jimmy Butler og Hörður Unnsteinsson.
Jimmy Butler og Hörður Unnsteinsson. EPA/Vísir

„Jimmy Butler er náttúrulega búinn að vera frábær í þessari úrslitakeppni og sýnt það enn og aftur að Jimmy Butler getur verið, er það ekki alltaf, A-klassa súperstjarna í raun og veru. Frá leik til leiks,“ sagði Sigurður Orri Kristjánsson, þáttastjórnandi Lögmál leiksins.

Lögmál leiksins er á sínum stað klukkan 21.30 í kvöld. Sigurður Orri stýrir þættinum að þessu sinni og Hörður Unnsteinsson er með honum. Hörður tók undir lofræðu Sigurðar Orra.

„Algjörlega. Hann sýndi það í úrslitakeppninni 2020, ég held að sú umræða hafi verið jörðuð þá þegar hann leiðir þetta Miami-lið í úrslitin. Það bjóst enginn við því og er kominn langleiðina með að gera það aftur tveimur árum seinna, þá er þessi umræða gjörsamlega jörðuð,“ sagði Hörður og hélt áfram.

„Ég meina við re-dröftuðum einhvern tímann í einhverju hlaðvarpi 2011 nýliðavalið sem hann var í. Held að ég hafi verið með bæði Kyrie Irving og Klay Thompson á undan honum.“

„Og öskraðir úr hlátri þegar ég valdi Butler á undan Thompson,“ skaut Sigurður Orri inn í.

„Ég er algjörlega tilbúinn að kvitta undir þann reikning núna og éta þann sokk. Ég myndi setja Jimmy Butler þar númer tvö núna á eftir Kawhi Leonard. Ég er ekki tilbúinn að setja hann yfir Kawhi, það er of mikið en ég meina. Titill í ár gæti farið langleiðina að staðfesta Jimmy Butler sem einn af þessum frábæru two-way leikmönnum sem getur leitt lið sem besti leikmaður til titils. Það eru ekkert margir þannig gæjar til,“ sagði Hörður að endingu.

Klippa: Lögmál leiksins um Jimmy Butler

Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.