Handbolti

„Snorri er þjálfarinn minn og besti vinur minn“

Sindri Sverrisson skrifar
Stiven Valencia hefur farið á kostum með ógnarsterku liði Vals og stefnir á atvinnumennsku og landsliðið.
Stiven Valencia hefur farið á kostum með ógnarsterku liði Vals og stefnir á atvinnumennsku og landsliðið. Stöð 2 Sport

Valsarinn Stiven Tobar Valencia er ekki bara frábær hornamaður sem stefnir á atvinnumennsku og landsliðið heldur einnig lunkinn plötusnúður sem skemmt hefur fólki á skemmtistaðnum 203 um helgar.

Þetta kom fram í skemmtilegu spjalli Stivens við strákana í Seinni bylgjunni eftir magnaðan stórsigur Vals á ÍBV í gærkvöld í fyrsta leik einvígisins um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta.

Stiven og félagar í Val virðast afar líklegir til að landa titlinum líkt og í fyrra og hann nýtur sín frábærlega, bæði í vörn og sókn, undir stjórn þjálfarans og silfurdrengsins Snorra Steins Guðjónssonar:

„Ég elska Snorra, við náum mjög vel saman. Snorri er þjálfarinn minn og besti vinur minn. Við erum mikið að djóka hvor í öðrum,“ sagði Stiven og benti á að Snorri ætti sinn þátt í því hve vel hann hefði þróast sem varnarmaður síðustu misseri.

Klippa: Stiven laufléttur eftir frábæran sigur Vals

Það er þó ekki síst hraðinn og krafturinn í Stiven í hraðaupphlaupum sem vakið hefur athygli, og hvernig þeir Björgvin Páll Gústavsson markvörður vinna saman.

„Ég og Bjöggi náum vel saman. Ég segi alltaf við Bjögga: Kastaðu þessu fram og ég næ þessu,“ sagði Stiven sem hefur sýnt að hann er með mikinn stökkkraft:

„Það halda kannski allir að ég sé alltaf að „taka lappir“ [lappaæfingar í ræktinni] en ég tek aldrei lappir. Þetta er bara í genunum, eitthvað náttúrulegt.“

„Einhvern veginn endaði ég á að spila á 203 klúbbnum“

Stiven æfði einnig fótbolta á árum áður og prófaði sig áfram í píanónámi. Þá hefur hann verið að geta sér orð sem DJ:

„Þetta er bara smá hobbí hjá mér. Ég byrjaði eitthvað að leika mér í þessu og svo þekkir maður mann. Einhvern veginn endaði ég á að spila á 203 klúbbnum og það gengur bara ágætlega. Ég er ekki að gigga mikið, sérstaklega núna þegar ég er í úrslitakeppninni, en maður tekur eitt og eitt,“ sagði Stiven léttur en allt spjallið við hann má sjá hér að ofan.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×