Handbolti

Snorri Steinn: Blessaður vertu, þetta starf er bara áhyggjur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson eggjar sína menn áfram.
Snorri Steinn Guðjónsson eggjar sína menn áfram. vísir/hulda margrét

Þrátt fyrir að Valur hafi rúllað yfir ÍBV í fyrsta leik úrslitaeinvígis Olís-deildar karla, 35-25, var Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, með báða fætur kyrfilega á jörðinni í leikslok.

„Slökum aðeins á. Þetta er glæsilegur sigur, ekki spurning. Frábær frammistaða hjá mínum mönnum og fyrri hálfleikurinn mjög góður. En við þurfum líka að læra að höndla þetta og koma okkar fljótt niður á jörðina,“ sagði Snorri í samtali við Vísi eftir leik.

„Þetta gefur okkur ekki neitt. Það er annar leikur, og öðruvísi leikur, sem bíður okkur í Vestmannaeyjum á sunnudaginn.“

Valur hafði beðið í ellefu daga eftir leik kvöldsins en þrátt fyrir það var ekkert ryð í Hlíðarendaliðinu.

„Byrjunin var frábær, krafturinn var svakalegur og við náðum strax vopnum okkar sem gerði þetta svolítið þægilegt. Byrjunin var sterk og lagði grunninn að þessum sigri,“ sagði Snorri.

„Hléið var langt en ég veit það ekki, ég velti mér ekkert upp úr þessu. Þetta var eins og þetta var og við þurftum að tækla það og gerðum það vel. Ef þetta hefði farið illa hefðum við getað talað eitthvað um þetta en erum við ekki bara búnir að því núna.“

Harkan í leiknum var mikil og dómararnir höfðu í nægu að snúast. „Þetta var fastur leikur, þetta eru úrslit, Valur og ÍBV, þannig að þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart,“ sagði Snorri.

Valur er kominn með frumkvæðið í einvíginu en erfiður leikur bíður Íslandsmeistaranna í Eyjum á sunnudaginn. Snorri segir að sínir menn verði með báða fætur á jörðinni í aðdraganda þess leiks.

„Ég hef ekkert svakalega miklar áhyggjur af því. Það er annar leikur sem bíður okkar og öðruvísi leikur, það er alveg klárt mál. Við þurfum tvo sigra í viðbót og það eitt og sér á að vera nóg til að ná mönnum niður,“ sagði Snorri.

Valur hefur unnið alla sex leiki sína í úrslitakeppninni. Þrátt fyrir það hefur Snorri áhyggjur.

„Alltaf. Blessaður vertu, þetta starf er bara áhyggjur,“ sagði Snorri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×