Handbolti

Teitur skoraði þrjú er Flensburg féll úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn í leik kvöldsins.
Teitur Örn í leik kvöldsins. Javier Borrego/Europa Press via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg misstu af sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu er liðið tapaði 27-24 gegn Barcelona í kvöld.

Barcelona vann fyrri leik liðanna með fjögurra marka mun, 33-29, og því ljóst að útleikurinn yrði erfiður fyrir Teit og félaga.

Börsungar náðu þriggja marka forskoti snemma í leiknum, en gestirnir í Flensburg voru þó fljótir að vinna þann mun upp. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði hálfleiks og staðan var 10-10 þegar gengið var til búningsherbergja.

Enn var jafnræði með liðunum í síðari hálfleik, en heimamenn virtust þó skrefinu framar. Börsungar unnu að lokum þriggja marka sigur, 27-24, og eru því á leið í undanúrslit eftir samanlagðan sjö marka sigur, 60-53.

Teitur skoraði þrjú mörk fyrir gestina í kvöld, en markahæsti maður vallarins var Dika Mem með sex mörk fyrir Börsunga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.