Körfubolti

Tatum tryggði Celtics oddaleik og Stríðsmennirnir komust í úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jayson Tatum fór fyrir liði Boston Celtics í nótt.
Jayson Tatum fór fyrir liði Boston Celtics í nótt. Stacy Revere/Getty Images

Jayson Tatum dró vagninn fyrir Boston Celtics í nótt er liðið tryggði sér oddaleik í undanúrslitum Austudeildarinnar í NBA með 13 stiga sigri gegn ríkjandi meisturum Milwaukee Bucks, 108-95. Þá Vann Golden State Warriors 14 stiga sigur gegn Memphis Grizzlies, 110-96, og liðið er því á leið í úrslit Vesturdeildarinnar.

Gestirnir frá Boston voru með bakið upp við vegg fyrir leik næturinnar og máttu ekki við tapi ef liðið ætlaði sér ekki í sumarfrí.

Jafnræði var með liðunum, en gestirnir virtust þó alltaf standa hálfu skrefi framar. Þeir náðu svo upp góðu forskoti í öðrum leikhluta og leiddu með tíu stigum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 53-43.

Liðið lét það forskot aldrei af hendi og gestirnir frá Boston unnu að lokum lífsnauðsynlegan 13 stiga sigur, 108-95.

Jayson Tatum var eins og áður segir allt í öllu í liði Boston, en hann skoraði 46 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Í liði Milwaukee átti Giannis Antetokounmpo sannkallaðan tröllaleik, en það dugði ekki til. Hann skoraði 44 stig, tók 20 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Í hinum leik næturinnar unnu Stríðsmennirnir frá Golden State 14 stiga sigur gegn Memphis Grizzlies og tryggðu sér þannig sæti í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Jafnræði var með liðunum framan af leik, en heimamenn tóku yfir í fjórða leikhluta þar sem þeir skoruðu32 stig gegn aðeins 19 stigum gestanna og lokatölur urðu 110-96.

Klay Thompson var atkvæðamestur í sóknarleik Golden State með 30 stig, en á eftir honum kom Steph Curry með 29. Í liði Memphis var það Dillon Brooks sem var fremstur meðal jafningja með 30 stig.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×