Skoðun

Skattahækkun um bakdyrnar

Þórður Gunnarsson skrifar

Meirihlutinn í Reykjavík hefur látið hjá líða að stuðla að nægilega mikilli húsnæðisuppbyggingu innan borgarmarkanna. Fulltrúar meirihlutans gera hlálegar tilraunir til þess skreyta sig með tölfræði um húsnæðisuppbyggingu borgarinnar í methæðum. En allir sjá að ekki hefur verið nóg gert. Lítið af eignum er til sölu og fasteignaverð hefur rokið upp úr öllu valdi.

Húsnæðisvandinn í Reykjavík snýr að framboði. Framboð fasteigna hefur minnkað í Reykjavík, einkum vegna einstrengingslegrar stefnu um þéttingu byggðar. Þétting byggðar er góðra gjalda verð og hagkvæm. En í hagkerfi sem vex jafn hratt og Ísland er ekki nóg að föndra við uppbyggingu fjölbýlishúsa meðfram umferðaræðum.

Það eru ekki bara fyrstu fasteignakaupendur sem þjást fyrir stefnu meirihlutans. Allir Reykvíkingar finna fyrir þéttingarstefnu borgarmeirihlutans.

Þegar framboð húsnæðis dregst saman sem raun ber vitni, þá hækkar fasteignamat eigna meira en ella. Reykjavíkurborg hefur haldið fasteignagjöldum óbreyttum um langa hríð. Þar af leiðandi eykst skattbyrði fasteignaeigenda.

Óbreytt álagningarprósenta fasteignagjalda er því skattahækkun sem laumað er inn bakdyramegin, en fasteignamat í Reykjavík hefur hækkað um tugi prósenta á undanförnum árum.

Með því að draga lappirnar við stuðla að auknu framboði húsnæðis, er Reykjavíkurborg að hækka skatta á alla Reykvíkinga. Sjálfstæðisflokkurinn vill frysta krónutölu fasteignagjalda. Ef meirihlutinn heldur völdum munu allir Reykvíkingar því þurfa að borga hærri fasteignaskatta á næsta ári.

Höfundur er hagfræðingur og frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×