Handbolti

„Unun að horfa á strákana leika vörn í dag“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlingur Richardsson var sáttur með frammistöðu sinna manna gegn Haukum, sérstaklega varnarmegin.
Erlingur Richardsson var sáttur með frammistöðu sinna manna gegn Haukum, sérstaklega varnarmegin. vísir/Hulda Margrét

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var að vonum sáttur eftir sigurinn á Haukum í Eyjum í kvöld, 27-23. Eyjamenn eru komnir í 2-0 í einvígi liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla.

„Mér líður bara mjög vel,“ sagði Erlingur við Vísi eftir leik. Stemmningin í Eyjum var frábær og gaf leikmönnum ÍBV aukakraft.

„Þú vilt leggja þig 110 prósent fram, þannig að þú gangir héðan út eftir að hafa lagt allt í sölurnar. Svo verður að koma í ljós hvort það dugi.“

Vörn ÍBV var mjög sterk í leiknum, eitthvað sem Erlingur var einkar ánægður með.

„Varnarleikurinn var alveg frábær og það var unun að horfa á strákana leika vörn í dag. En þú getur aldrei slakað á gegn Haukum. Þeir eru með brellur hér og þar sem við þurfum að vera undirbúnir fyrir. Mér fannst við ná að loka flestu í dag,“ sagði Erlingur.

En hver er lykilinn að halda Haukum aðeins í 23 mörkum?

„Þetta er sama sagan. Þetta er kannski bara gamla góða 6-0 vörnin, vera þéttir og klárir. Svo erum við líkamlega sterkir. Arnór [Viðarsson] og þessir ungu strákar koma inn og þetta eru engin lömb að leika sér við. Þeir eru búnir að vera í þreksalnum,“ svaraði Erlingur.

Þrátt fyrir að ÍBV sé komið í 2-0 í einvíginu er Erlingur með báða fætur kyrfilega á jörðinni þótt hann leyfi sínum mönnum auðvitað að gleðjast yfir góðum sigri.

„Við megum alveg vera uppi ef við erum einbeittir. Það er um að gera að vera stoltir og tilbúnir í slaginn. Einbeitingin þarf að vera rétt,“ sagði Erlingur að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×