Umfjöllun og viðtal: ÍBV - Stjarnan 22-28 | Stjörnukonur gerðu út um leikinn á lokametrunum

Einar Kárason skrifar
Stjörnukonur tóku forystuna í einvíginu í kvöld.
Stjörnukonur tóku forystuna í einvíginu í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV tók á móti Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í 6-liða úrslitum Olís deildar kvenna. Garðbæingar gerðu sér lítið fyrir og unnu góðan sex marka sigur og eru í góðri stöðu fyrir leikinn um næstu helgi.

Leikurinn var jafn til að byrja með og leiddu Eyjastúlkur fyrsta þriðjung fyrri hálfleiks en gestirnir úr Garðabæ aldrei langt undan. Stjarnan komst loks yfir eftir um stundarfjórðung áður en ÍBV náði forustunni aftur stuttu síðar, í stöðunni 10-9. Gestirnir jöfnuðu leikinn, skoruðu svo næsta mark og tóku því næst gjörsamlega öll völd á vellinum. Þær skoruðu átta mörk gegn einu það sem eftir lifði hálfleiks og þegar bjallan fór af stað og liðin gengu til búningsherbergja var staðan 11-17.

Darija Zecevic var hreint út sagt frábær í fyrri hálfleiknum og varði þrettán bolta. Mörg af þeim skotum úr algjörum dauðafærum. Það var því stór hálfleikur framundan fyrir ÍBV sem áttu í stökustu vandræðum með sprækar Stjörnustúlkur.

Þær bláklæddu skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiks og settu þar með tóninn fyrir það sem koma skildi. Stjarnan spilaði agaðan varnarleik og yfirvegaðan sóknarleik og átti Eyjaliðið erfitt með að saxa á gott forskot gestanna. Mest tókst þeim að minnka muninn í fjögur mörk í síðari hálfleiknum áður en Garðbæingar bættu í að nýju. Aldrei varð alvöru spenna frá því um miðjan fyrri hálfleikinn og þegar sextíu mínúturnar voru liðnar var staðan 22-28. Niðurstaðan því sex marka sigur Stjörnunnar sem fara með sigur á bakinu í annan leik liðanna sem fer fram á laugardaginn næstkomandi.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnustúlkur héldu vissri línu mest allan leikinn og virtust þær hafa fullkomið vald á spennustiginu. Eftir að þær náðu góðu forskoti um miðjan síðari hálfleik náði ÍBV aldrei að ógna þeirri forustu neitt af viti.

Hverjar stóðu upp úr?

Sunna Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, dró vagninn fyrir sitt lið og skoraði tíu af tuttugu og tveimur mörkum liðsins. Henni næst var Elísa Elíasdóttir með fjögur mörk. Þá varði Marta Wawrzynkowska tíu bolta í markinu.

Í liði gestanna var Darija Zecevij stórkostleg í fyrri hálfleiknum og varði hvert skotið á fætur öðru, þar af mörg dauðafæri. Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna og Anna Karen Hansdóttir kom boltanum sjö sinnum í netið.

Hvað gekk illa?

Þessi fimmtán mínútna kafli ÍBV kollvarpaði þeirra leik og þrátt fyrir að gefast aldrei upp var bilið milli liðanna einfaldlega of stórt. Lið með þau gæði sem Stjarnan býr yfir var ekki að fara að henda þessu forskoti frá sér, aftur, en það kom þó fyrir í leik þessara liða fyrr í vetur. Of margir lykilleikmenn í liði ÍBV hittu á slæman dag og þurfa margar að stíga upp fyrir leikinn á laugardag.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur í Garðabæ á laugardaginn, 30.apríl.

Hrannar G: Næsti leikur byrjar núll - núll

Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður með niðurstöðuna og ekki síst spilamennsku síns liðs.

„Ég er ekkert eðlilega ánægður með þær. Þetta var geggjuð frammistaða. Skorum sautján mörk í fyrri hálfleik og þetta var bara geggjað.”

„Þetta var jafnt eftir stundarfjórðungs leik. Þær ná mest að minnka muninn í þrjú mörk, minnir mig, í seinni hálfleik. Þá gáfum við bara í og það sýnir karakterinn í okkur. Darija var frábær í markinu og vörnin var geggjuð sem hjálpaði mikið til. Eftir síðasta leik okkar hér í Eyjum þá skulduðum og við ætluðum ekki að missa niður forskotið. ”

„Næsti leikur byrjar svo bara núll – núll og það er algjörlega nýr leikur. Það hjálpar okkur ekkert að hafa unnið með fimm eða sex mörkum í dag. Það er næsti leikur.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira