Handbolti

Handviss um að Selfyssingar vinni oddaleikinn í Krikanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Örn Jónsson fagnar í leik Selfoss og Hauka 22. maí 2019. Með sigri í honum tryggðu Selfyssingar sér Íslandsmeistaratitilinn.
Elvar Örn Jónsson fagnar í leik Selfoss og Hauka 22. maí 2019. Með sigri í honum tryggðu Selfyssingar sér Íslandsmeistaratitilinn. vísir/vilhelm

Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handbolta, er handviss um að hans gömlu félagar í Selfossi vinni FH og komist áfram í undanúrslit Olís-deildarinnar í kvöld.

Selfyssingar mæta FH-ingum í oddaleik í Kaplakrika klukkan 19:30 í kvöld. Elvar er staddur hér á landi eftir að hafa gengist undir aðgerð á öxl í fyrradag. Hann er enn verkjaður og á síður von á því að hann mæti í Krikann í kvöld.

„Ég efast um það. Ég er ekki alveg klár í að fara út núna. En mig langar mikið að sjá Selfoss komast í undanúrslit. Ég hef alltaf trú á mínum mönnum. Þeir koma til baka eftir síðasta leik,“ sagði Elvar í samtali við Vísi í dag.

Hann var í lykilhlutverki þegar Selfoss varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina sinn 2019, eftir 3-1 sigur á Haukum. Elvar skoraði ellefu mörk þegar Selfyssingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 36-25 sigri á Haukum 22. maí 2019. Það var hans síðasti leikur með íslensku liði í bili en þá um sumarið gekk hann í raðir Skjern í Danmörku.

Elvar, sem leikur með Melsungen í Þýskalandi, fylgist vel með sínu gamla liði og reynir að horfa á sem flesta leiki með því.

„Það er reyndar skemmtileg tilviljun að Selfoss er oftast að spila á sama tíma og ég úti. En þegar það er ekki reyni ég að horfa,“ sagði Selfyssingurinn.

Leikur FH og Selfoss hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Vísi og á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×