Handbolti

Ómar Ingi markahæstur í sigri | Viktor og félagar í erfiðri stöðu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk í kvöld. vísir/Getty

Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins er Magdeburg vann góðan þriggja marka útisigur gegn HBC Nantes í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld. Á sama tíma þurftu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG að sætta sig við fimm marka tap.

Íslendingalið Magdeburg var skrefi á eftir allan fyrri hálfleikinn er liðið heimsótti Nantes í kvöld. Heimamenn höfðu þriggja marka forskot stærstan hluta hálfleiksins og leiddu með tveimur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja.

Íslendingaliðið var þó ekki lengi að jafna metin í síðari hálfleik. mikið jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leiks, en gestirnir í Magdeburg með Ómar Inga fremstan í flokki sigldu fram úr undir lokin og unnu góðan þriggja marka sigur, 28-25. 

Ómar Ingi skoraði sex mörk fyrir Magdeburg og var markahæsti maður vallarins. Gísli Þorgeir Kristjánsson leikur einnig með liðinu og skoraði tvö mörk.

Magdeburg fer því með þriggja marka forystu í síðari leik liðanna sem fer fram á heimavelli þeirra að viku liðinni.

Á sama tíma þurftu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG að sætta sig við fimm marka tap á útivelli gegn RK Nexe, 32-27.

Viktor Gísli Stóð vaktina í markinu hjá GOG og varði sjö skot, en liðið þarf að snúa taflinu við á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×