Handbolti

„Þetta var mjög döpur frammistaða“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, var svekktur eftir tapið í dag.
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, var svekktur eftir tapið í dag. Vísir/Hulda Margrét

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, var svekktur eftir tólf marka tap á móti Stjörnunni í síðasta leik Olís-deildar kvenna í handbolta í dag. Haukar lentu undir strax í byrjun leiks og áttu erfitt með að koma sér almennilega inn í leikinn. Lokatölur 32-20. 

„Þetta var mjög döpur frammistaða. Ég held að þær séu með 28 skot varinn, 60% markvarsla. Við eigum náttúrulega ekki séns í leikinn þannig,“ sagði Gunnar í leikslok. 

„Við byrjum leikinn illa, svo komum við vel inn í hann og jöfnum. Missum hann svo aðeins frá okkur í fyrri hálfleik í lokinn. Síðan byrjum við seinni hálfleikinn skelfilega, klikkum á dauðafærum og vítum og þær ná þessari forystu sem við náðum aldrei að laga.“

Úrslitakeppnin er framundan og hefur Gunnar áhyggjur af sóknarleik sinna kvenna. 

„Ég hef áhyggjur af því ef við erum að láta markmennina í hinum liðunum verja 60%, við þurfum að skoða það. Að öðru leyti hef ég ekki þannig lagað áhyggjur af liðinu, leikmennirnir eru í góðu standi og það eru fínar æfingar. Við þurfum að skora meira.“

Næsti leikur er á móti KA/Þór í úrslitakeppninni og vill Gunnar að stelpurnar mæti í leikinn til þess að vinna. 

„Það eru úrslitaleikir framundan og ef ég skil það rétt erum við að fara norður á Akureyri. Það er verðugt verkefni sem við þurfum að undirbúa okkur vel undir og mæta í þá leiki til að vinna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×