Körfubolti

Martin og félagar lutu í lægra haldi fyrir botnliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia töpuðu óvænt í kvöld.
Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia töpuðu óvænt í kvöld. Borja B. Hojas/Getty Images for Hereda San Pablo Burgos

Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia þurftu að sætta sig við sjö stiga tap er liðið sótti botnlið Real Betis heim í spænsku ACB-deildinni í körfubolta í kvöld, 75-68.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og heimamenn í Real Betis leiddu með einu stigi að fyrsta leikhluta loknum. Heimamenn voru svo skrefinu frama í öðrum leikhluta og voru komnir í sjö stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, staðan 36-29.

Martin og félagar mættu grimmari til leiks í síðari hálfleik og snéru leiknum sér í hag. Liðið tók forystuna og leiddi með einu stigi þegar komið var að lokaleikhlutanum. Þar voru það svo heimamenn sem reyndust sterkari á ný og þeir tryggðu sér sjö stiga sigur, 75-68.

Martin Hermannsson skoraði tvö stig fyrir Valencia, tók tvö fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Liðið situr í þriðja sæti deildarinnar með 36 stig eftir 28 leiki, átta stigum minna en topplið Real Madrid. Þrátt fyrir tvo sigra í röð situr Real Betis enn á botni deildarinnar með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×