Körfubolti

Sara og stöllur sendar í sumarfrí

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Alex Nicodim/NurPhoto via Getty Images

Sara Rún Hinriksdóttir og stöllur hennar í Phoenix Constanta eru komnar í sumarfrí eftir sex stiga tap gegn Sepsi í þriðja leik liðanna í undanúrslitum rúmensku deildarinnar í körfubolta í kvöld, 76-70.

Gestirnir í Sepsi leduu einvígið 2-0 fyrir leik kvöldsins og því var ljóst að Sara og liðsfélagar hennar í Phoenix Constanta þurftu á sigri að halda ef liðið ætlaði sér ekki í sumarfrí.

Gestirnir voru sterkari í upphafi leiks og leiddu með tíu stigum að loknum fyrsta leikhluta. Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 45-35, Sepsi í vil.

Áfram var nokkuð gott jafnvægi á leiknum í upphafi síðari hálfleiks, en gestirnir náðu þó að auka forskot sitt í 13 stig. Heimakonur í Phoenix Constanta klóruðu í bakkann í lokaleikhlutanum, en náðu ekki að komast nær en í sex stiga mun. Niðurstaðan varð sex stiga sigur gestanna sem eru á leið í úrslitaeinvígið gegn FCC ICIM Arad. Sara Rún og liðsfélagar hennar eru hins vegar á leið í sumarfrí.

Sara Rún átti fínan leik fyrir Phoenix Constanta. Hún skoraði ellefu stig, tók tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×