Handbolti

Arnar Daði: Ég held að fólk ætti bara að fylgjast með mér á Twitter

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var ánægður með sigur dagsins
Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var ánægður með sigur dagsins Vísir/Hulda Margrét

Grótta sigraði lokaleik sinn á tímabilinu með fimm mörkum á heimavelli gegn KA í kvöld, lokatölur 33-28. Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var rólegur og klisjukenndur í svörum líkt og hann lofaði á Twitter-reikningi sínum á undanförnum dögum.

„Við mætum bara tilbúnari til leiks. Vörn, markvarsla og hraðaupphlaup skóp þennan sigur. Við vildum þetta bara meira held ég, ef ég lít á þetta hreinskilið.“

Birgir Steinn Jónsson, leikmaður Gróttu, fékk umdeilt rautt spjald í leiknum. Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu hafði lítið sem ekkert að segja um það.

„Ég held að ég hafi ekki séð það nægilega vel til að geta tjáð mig um það.“

Aðspurður hvort hann sjálfur hefði eitthvað frekara að segja um vísun ummæla sinna til aganefndar eftir leik Gróttu í síðustu umferð gegn ÍBV, hafði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, þetta að segja.

„Nei. Ég held að fólk ætti bara að fylgjast með mér á Twitter. Ég ætla ekki neitt að tjá mig meira um það. Það mál er bara í ferli.“

Arnar Daði, veit ekki alveg hvað hans bíður á næsta tímabili.

„Framtíðarplönin bara fyrir þrem, fjórum dögum var að fara í úrslitakeppni. Þannig að við erum ekkert komnir neitt lengra en það. Ég held að það segi sig sjálft að það væri erfitt að hlaupa frá borði miðað við staðsetninguna sem við erum á akkúrat núna. Eigum við ekki bara að segja að tíminn verði bara að leiða það í ljós.“

Birgir Steinn Jónsson, besti leikmaður Gróttu á tímabilinu, hefur verið orðaður við nokkur önnur lið í deildinni, þar á meðal Hauka. Arnar Daði staðfesti þó að Birgir Steinn mun leika með Gróttu á næsta tímabili.

„Já, ef hann slítur ekki krossband eða slíkt. Hann er búinn að framlengja við Gróttu. Það var risastórt fyrir okkur í Gróttu að Birgir Steinn hafi tekið þá ákvörðun að vera í Gróttu. Hann var eftirsóttasti leikmaðurinn í deildinni held ég. Ég held að hann sé að enda allavegana sem markahæsti leikmaður deildarinnar annað tímabilið í röð fyrir utan vítaköst. Frábært fyrir hann og frábært fyrir okkur og sýnir bara hvað við erum að gera fyrir þennan strák. Þetta er strákur sem fékk ekki mínútu í Stjörnunni áður en hann kemur hingað og var lánaður í Fjölni. Ég er alltaf að djóka við hann, að hann var eins og spaghettí þegar hann kom hingað hérna fyrir tveimur árum en endar sem markahæsti leikmaðurinn tvö ár í röð,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.