Innlent

Salan á Ís­lands­banka beri aug­ljós ein­kenni spillingar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Atli Þór Fanndal er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.
Atli Þór Fanndal er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International. Aðsend/Vísir/Vilhelm

„Sala fjármálaráðherra á hlut ríkisins í Íslandsbanka er skólabókardæmi um spillingu, aðstöðubrask, vanhæfni og óheilbrigða menningu ábyrgðarleysis undir forystu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Íslandsdeildar Transparency International.

Samtökin hafa það að markmiði að því að efla að gagnsæi í íslensku þjóðfélagi og að vinna að því að minnka spillingu í þjóðfélaginu, einkum á sviði stjórnmála og viðskipta, eins og segir á vefsíðu Íslandsdeildar samtakanna.

Í tilkynningunni segir að flest bendi til þess að hvorki salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka né hið almenna útboð í maí hafi staðist réttmætar kröfur um fagleg vinnubrögð eða störf í lýðræðislegu umboði. Vísbendingar um spillta meðferð málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar hrannist upp.

Fjármálaráðherra hafi ekki trúverðugleika

„Héðan í frá er full ástæða til að ætla að fjármálaráðherra hafi hvorki stöðu né trúverðugleika til að hlutast til um sölu banka í eigu almennings. Hann hefur endurtekið gert sig sekan um að greina ekki með réttum og tryggilegum hætti á milli almannahagsmuna og einka- og/eða sérhagsmuna í störfum sínum sem ráðherra,“ segir í tilkynningunni.

Þá er lagt til að Alþingi - ekki fjármálaráðherra - eigi að taka ákvörðun um meðferð málsins í umboði kjósenda. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur óskað eftir því að Ríkisendurskoðun rannsaki bankasöluna en samtökin segja mikilvægt í ljósi þrígreiningar ríkisvaldsins að fjármálaráðherra, sem er hluti af framkvæmdavaldinu, komi hvergi nálægt framvindu málsins.

„Ef aðgerðir og ákvarðanir kjörinna fulltrúa eru sveipaðir huliðshjúpi verða þær að gróðrarstíu hlutdrægni, brotum á mannréttindum og mögulegum lögbrotum. Lögbrot kjörinna fulltrúa, ekki síst ráðherra, skaða mikilvæga þjóðarhagsmuni og eru ógn við heilbrigt lýðræði.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×