Handbolti

Viggó vongóður um að geta beitt sér gegn Austurríki

Sindri Sverrisson skrifar
Viggó Kristjánsson á landsliðsæfingu. Hann reiknar með að geta spilað gegn Austurríki í næstu viku.
Viggó Kristjánsson á landsliðsæfingu. Hann reiknar með að geta spilað gegn Austurríki í næstu viku. vísir/vilhelm

Viggó Kristjánsson meiddist í ökkla þegar íslenska landsliðið kom saman til æfinga hér á landi í síðasta mánuði en reiknar með því að geta látið til sín taka í landsleikjunum mikilvægu gegn Austurríki.

Íslenska landsliðið kemur saman og mætir Austurríki í Bregenz á miðvikudaginn í næstu viku, og svo aftur á Ásvöllum laugardaginn 16. apríl. Leikirnir skera úr um það hvort liðanna kemst á heimsmeistaramótið sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi í janúar.

Meiðsli hafa angrað Viggó síðustu vikur eftir að liðband í ökkla slitnaði á æfingu landsliðsins um miðjan mars. 

Vegna meiðslanna hefur Viggó ekki getað æft sem skyldi síðustu vikur en þó spilað með liði Stuttgart sem er skammt frá fallsæti í þýsku 1. deildinni í handbolta.

Viggó segir að í ljósi þess að meiðslin séu ekki svo alvarleg, og að fram undan séu mikilvægir leikir með Stuttgart og landsliðinu, komi ekki til greina að taka sér hvíld á þessum tímapunkti. Frekar æfi hann og spili með ökklann vel teipaðan.

Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem að Viggó glímir við meiðsli en hann meiddist í þumalfingri í haust og missti af átta leikjum í byrjun tímabilsins.

Hvort sem að Stuttgart fellur um deild eða ekki er ljóst að Viggó spilar áfram í efstu deild Þýskalands á næstu leiktíð því hann hefur samið um að snúa aftur til Leipzig í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×