Handbolti

Skandall ef Afturelding kemst ekki í úrslitakeppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Magnússon og strákarnir hans í Aftureldingu þurfa að hafa sig alla við til að halda sæti sínu í úrslitakeppninni.
Gunnar Magnússon og strákarnir hans í Aftureldingu þurfa að hafa sig alla við til að halda sæti sínu í úrslitakeppninni. vísir/vilhelm

Jóhanni Gunnari Einarssyni þykir leiðinlegt að sjá hvernig komið er fyrir Aftureldingu, hans gamla liði. Theodór Ingi Pálmason segir það skandal ef Mosfellingar komast ekki í úrslitakeppnina.

Afturelding steinlá fyrir Val, 18-26, í 20. umferð Olís-deildar karla á föstudaginn. Valsmenn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 10-12, en í seinni hálfleik gekk ekkert upp hjá Mosfellingum sem skoruðu þá aðeins átta mörk.

Afturelding hefur aðeins fengið þrjú stig í síðustu fimm leikjum og Mosfellingar eiga nú á hættu að missa af úrslitakeppninni. Þeir eru bara tveimur stigum á undan Gróttu sem er í 9. sætinu.

„Þeir skoruðu 5-6 mörk á tuttugu mínútum í seinni hálfleik og þar af voru fjögur úr vítum. Þetta var eitthvað fáránlegt. Þeir eru í 8. sæti. Við spáðum þeim rosalega góðu gengi enda með frábæran mannskap,“ sagði Jóhann Gunnar í Seinni bylgjunni.

„Ég gæti talað endalaust því ég ber miklar tilfinningar til Afturelding og þykir mjög vænt um þetta félag. Það var svo mikill uppgangur og mikið í gangi þarna. En það er ekki eins og þeir hafi eitthvað slakað á. Þeir eru alltaf vakandi á leikmannamarkaðnum og fá toppþjálfara.“

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Aftureldingu

Guðmundur Bragi Ástþórsson var miðpunkturinn í sóknarleik Aftureldingar fyrir áramót, áður en Haukar kölluðu hann til baka úr láni.

„Þeir eru ekki með miðjumann. Eftir á var það sniðugt að setja Guðmund Braga í svona stórt hlutverk ef þeir vissu að þeir ættu á hættu að missa hann. Þeir eru bara með þrjár skyttur og gegn Val var ekkert í gangi. Þetta var átakanlega lélegt í seinni hálfleik,“ sagði Jóhann Gunnar.

Theodór Ingi Pálmason segir að það yrðu gríðarleg vonbrigði ef Afturelding missir af sæti í úrslitakeppninni.

„Það er margt rosalega skrítið í þessu og þetta tímabil vonbrigði. Og ég ætla bara að segja það að ef þeir fara ekki úrslitakeppnina með þennan hóp er það skandall,“ sagði Theodór.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×