Handbolti

Enn bætist í ofurlið Álaborgar: Landin kemur 2023

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niklas Landin fer aftur heim til Danmerkur þarnæsta sumar.
Niklas Landin fer aftur heim til Danmerkur þarnæsta sumar. getty/Alex Gottschalk

Niklas Landin, fyrir danska landsliðsins og besti handboltamaður heims 2021, gengur í raðir danska meistaraliðsins Álaborgar frá Kiel eftir næsta tímabil.

Hinn 33 ára Landin hefur leikið í Þýskalandi síðan 2012, fyrst með Rhein-Neckar Löwen í þrjú ár og svo Kiel síðan 2015. Hann hefur tvisvar sinnum orðið þýskur meistari og unnið tvo Evróputitla með Kiel.

Landin er samningsbundinn Kiel til 2025 en ætlar að söðla um og fara aftur heim til Danmerkur sumarið 2023, til ofurliðs Álaborgar. Þar á bæ eru menn afar stórhuga. Fyrir þetta tímabil fékk Álaborg meðal annars Aron Pálmarsson, Jesper Nielsen og Kristian Bjørnsen. Og í sumar kemur svo danska stórstjarnan Mikkel Hansen til liðsins.

Landin hefur verið einn besti markvörður heims undanfarin áratug og hefur tvisvar sinnum verið valinn besti leikmaður heims af IHF, 2019 og 2021. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með danska landsliðinu, EM, HM og Ólympíuleikana.

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar sem er í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Um þarsíðustu helgi varð Álaborg danskur bikarmeistari. Á síðasta tímabili komst Álaborg í úrslit Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×