Körfubolti

Skoraði sína fyrstu körfu í efstu deild með skoti frá miðju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bergur Ingi Óskarsson lætur hér vaða frá miðju og skorar sína fyrstu körfu í efstu deild.
Bergur Ingi Óskarsson lætur hér vaða frá miðju og skorar sína fyrstu körfu í efstu deild. S2 Sport

Þórsarinn Bergur Ingi Óskarsson skoraði síðustu körfu Þórsara í Subway-deild karla í körfubolta í bili en Þórsliðið er fallið og lék sinn síðasta leik á tímabilinu í gær.

Þórsarar töpuðu á móti Tindastóli á Sauðárkróki í gærkvöldi en síðasta skot leiksins gladdi mörg Þórshjörtu og kynnti um leið nýjan leikmann fyrir íslensku körfuboltaáhugafólki.

Bergur Ingi var þarna að spila sinn fyrsta leik en hann er átján ára gamall. Hann kom inn á undir lok leiksins í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik og það er óhætt að segja að fyrsta karfan hans í efstu deild hafi verið sérstök.

Fyrsta karfan hjá Bergi var nefnilega flautukarfa frá miðju. Þjálfarinn hans, Bjarki Ármann Oddsson, vakti athygli á körfu stráksins á samfélagsmiðlum.

„Bergur Ingi stimplar sig skemmtilega inn í úrvalsdeildina í körfubolta. Engin smá fyrsta karfa með meistaraflokki! En vonandi verður stutt í næstu körfu Þórs frá Akureyri í úrvalsdeild en sú síðasta í þessari lotu var skemmtileg og yljaði hjarta mitt,“ skrifaði Bjarki Ármann.

Bergur Ingi fékk boltann þegar tíminn var að renna út. Það var því ekkert annað fyrir hann að gera en að skjóta á körfuna. Hann gerði það og boltinn söng í netinu um leið og klukkan rann út.

Klippa: Fyrsta karfan í fyrsta leiknum var flautukarfa frá miðju



Fleiri fréttir

Sjá meira


×