Körfubolti

Varði sigurinn með tilþrifum

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo gerir sig kláran í að verja skot Joels Embiid á lokasekúndum leiksins í nótt.
Giannis Antetokounmpo gerir sig kláran í að verja skot Joels Embiid á lokasekúndum leiksins í nótt. AP/Matt Slocum

Gríska goðið Giannis Antetokounmpo fór á kostum í toppslag austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta. Hann varði með tilþrifum skot þegar innan við tvær sekúndur voru eftir og tryggði Milwaukee Bucks 118-116 útisigur gegn Philadelphia 76ers.

Með sigrinum er Milwaukee í 2. sæti austurdeildarinnar en Philadelphia er einum sigri á eftir í 4. sæti. Milwaukee er með jafnmörg töp og topplið Miami Heat, sem mætir Boston Celtics í kvöld, en á leik til góða nú þegar liðin eiga 6-7 leiki hvert eftir af deildarkeppninni.

Antetokounmpo skoraði 40 stig í leiknum í gær en það voru tilþrif hans í lokin, þegar hann varði skot Joel Embiid alveg við körfuna, sem vöktu mesta athygli.

„Þetta var stórkostleg varsla,“ sagði Doc Rivers, þjálfari Philadelphia. „Bara einstök varsla,“ sagði Mike Budenholzer, þjálfari Milwaukee.

Khris Middleton skoraði 22 stig fyrir Milwaukee og Jrue Holiday 18, og meistararnir eiga núna möguleika á að landa efsta sæti austurdeildarinnar áður en úrslitakeppnin hefst.

James Harden skoraði 32 stig og tók 9 fráköst fyrir heimamenn og Embiid, sem byrjaði rólega, skoraði 29 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Úrslitin í gær:

  • Philadelphia 116-118 Milwaukee
  • Washington 94-107 Chicago
  • Brooklyn 130-123 Detroit
  • Dallas 128-110 LA Lakers
  • LA Clippers 121-115 Utah

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×