Handbolti

Hansen ber sig vel þrátt fyrir blóðtappann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikkel Hansen snýr aftur til Danmerkur í sumar. Hann hefur ekki leikið þar síðan hann lék með ofurliði AG Kaupmannahafnar tímabilið 2011-12.
Mikkel Hansen snýr aftur til Danmerkur í sumar. Hann hefur ekki leikið þar síðan hann lék með ofurliði AG Kaupmannahafnar tímabilið 2011-12. getty/Alex Gottschalk

Danska handboltastjarnan Mikkel Hansen hefur það ágætt þrátt fyrir að hafa fengið blóðtappa í lungun.

Í síðustu viku gekkst Hansen undir aðgerð í Kaupmannahöfn vegna brjóskskemmda í hné. Í aðgerðinni fékk hann blóðtappa í lungun. Vegna þess verður hann frá keppni það sem eftir lifir tímabilsins. Hansen þarf að taka blóðþynnandi lyf næsta hálfa árið.

Hansen hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Paris Saint-Germain en hann gengur í raðir Álaborgar í sumar. Þar mun hann leika með Aroni Pálmarssyni. Þá er Arnór Atlason aðstoðarþjálfari Álaborgar.

Íþróttastjóri Álaborgar, Jan Larsen, hefur verið í sambandi við Hansen og segir að hljóðið í honum sé gott, allavega miðað við aðstæður.

„Ég hef talað við Mikkel Hansen og hann hefur það fínt eftir að þetta skaut honum skelk í bringu. Þetta er ótrúlega leiðinlegt fyrir Mikkel og ömurleg reynsla. En sem betur fer er þetta eitthvað sem hann kemst yfir,“ sagði Larsen við TV 2.

„Við höfum ekkert talað um íþróttir. Þetta breytir engu fyrir okkur. Mikkel kemur til Álaborgar og við tökum þátt í endurhæfingu hans. Það er það mikilvægasta núna. Við förum okkur hægt. Hann er í góðum höndum núna.“

PSG staðfesti að Hansen væri ekki í lífshættu og að félagið myndi aðstoða hann í endurhæfingunni. Hansen hefur leikið með PSG síðan 2012 og unnið fjölda titla með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×