Körfubolti

Faðmaði Spike Lee fyrir leik og þaggaði svo niður í áhorfendum í MSG

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trae Young kann hvergi betur við sig en í Madison Square Garden.
Trae Young kann hvergi betur við sig en í Madison Square Garden. getty/Michelle Farsi

Trae Young virðist hvergi njóta sín betur en í Madison Square Garden og sýndi það enn og aftur í nótt þegar Atlanta Hawks vann New York Knicks, 111-117, í NBA-deildinni í körfubolta.

Áður en leikurinn hófst faðmaði Young leikstjórann Spike Lee, einn dyggasta stuðningsmann Knicks. Móttökurnar voru þó öllu óblíðari hjá öðrum áhorfendum í Madison Square Garden sem púuðu á Young, eins og í úrslitakeppninni í fyrra. En líkt og þá lækkaði hann í þeim rostann.

Young skoraði 45 stig í leiknum í nótt, gaf átta stoðsendingar og setti niður sjö þriggja stiga skot. Bogdan Bogdanovic skoraði 32 stig af bekknum fyrir Atlanta. RJ Barrett skoraði þrjátíu stig og tók þrettán fráköst í liði Knicks.

Golden State Warriors er í frjálsu falli þessa dagana og í nótt töpuðu Stríðsmennirnir fyrir einu lélegasta liði deildarinnar, Orlando Magic, 94-90. Stephen Curry lék ekki með Golden State vegna meiðsla.

Wendall Carter skoraði nítján stig fyrir Orlando og Franz Wagner átján. Jordan Poole var stigahæstur hjá Golden State með 26 stig.

Meistarar Milwaukee Bucks komust aftur á sigurbraut þegar þeir unnu Chicago Bulls örugglega, 126-98. Jrue Holiday skoraði 27 stig fyrir Milwaukee og Giannis Antetokounmpo 25. Sá síðarnefndi tók einnig sautján fráköst.

Þá vann Denver Nuggets Los Angeles Clippers, 127-115. Nikola Jokic skoraði þrjátíu stig fyrir Denver og tók fjórtán fráköst.

Úrslitin í nótt

  • NY Knicks 111-117 Atlanta
  • Orlando 94-90 Golden State
  • Milwaukee 126-98 Chicago
  • Denver 127-115 LA Clippers
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×