Skoðun

Alda stefnu­festu

Ísak Rúnarsson skrifar

„Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, af því að við ætlum að vera leiðandi forystuafl, að við látum ekki aðra flokka móta okkar stefnu. Við ætlum að leiða og svo ætlum við að leyfa þeim sem vilja vinna með okkur, þegar að línur skýrast og við sjáum betur hvar sameiginlegir fletir eru að þá förum við af stað með gott samstarf í huga,“ sagði Alda María Vilhjálmsdóttir frambjóðandi í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Dagmálum nú í vikunni.

Þetta eru orð að sönnu og ættu að vera einkunnarorð Sjálfstæðismanna um land allt. Raunar hafa þau verið einkunnarorð flokksins flesta hans lífdaga, enda hefur flokkurinn tekist á við það hlutverk að leiða íslenskt samfélag áfram í næstum 100 ár – og það býsna farsællega.

Það að Sjálfstæðisflokkurinn sé þungamiðja íslenskra stjórnmála er ekki og hefur aldrei verið gefins. Staða hans kemur fyrst og fremst til af því að forystumenn flokksins hafa um nokkurra kynslóða tíð gengið fram með samblandi af stefnufestu og virðingu fyrir flokksfélögum og kjósendum. Flokkurinn hefur alla tíð verið fjöldaflokkur, sem lagt hefur sig í líma við að hlusta á flokksmenn og kjósendur sína og staðið þétt á bakvið prinsipp og grundvallarstefnumál. Svo þétt raunar að flestir aðrir stjórnmálaflokkar hafa meira og minna skilgreint stefnu sína og kosningaloforð sem andlag við Sjálfstæðisflokkinn.

Uppi eru hugmyndir um að sveigja af þessari braut. Að Sjálfstæðisflokkurinn eigi í ríkari mæli að móta stefnu sína þannig að hún falli öðrum stjórnmálaflokkum í geð, svo hann fái að taka þátt í partýinu í ráðhúsinu. Það væru grundvallarmistök og uppgjöf gagnvart hlutverki Sjálfstæðisflokksins sem leiðandi stjórnmálaafl í landinu.

Alda María Vilhjálmsdóttir veit hversu mikilvægt forystuhlutverk flokksins er og hún þekkir mikilvægi þess að koma heiðarlega fram við flokksmenn og kjósendur. „Það er gríðarlega mikilvægt að muna að við erum hér fyrst og fremst fyrir okkar kjósendur til þess að efna okkar loforð gagnvart þeim,“ sagði hún einnig í fyrrnefndum Dagmálaþætti.

Alda María Vilhjálmsdóttir mun hvergi hvika frá grundvallarhugsjónum Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna styð ég hana til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Alda María mun ekki gefast upp, hún mun ekki láta deigan síga og hún hefur burði til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins til sigurs í vor – á forsendum flokksins en ekki keppinautanna. Ég hvet alla til þess að setja Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höfundur er meistaranemi við Harvard og Dartmouth háskóla.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.