Handbolti

Áfall fyrir Selfoss: Ísak ristarbrotinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Gústafsson hefur leikið sinn síðasta leik í vetur.
Ísak Gústafsson hefur leikið sinn síðasta leik í vetur. vísir/Hulda Margrét

Selfyssingar urðu fyrir miklu áfalli þegar örvhenta skyttan Ísak Gústafsson ristarbrotnaði á æfingu með U-20 ára landsliðinu.

Halldór Sigfússon, þjálfari Selfoss, staðfesti þetta við íþróttadeild. Að hans sögn verður Ísak frá í þrjá mánuði og hefur því lokið leik á þessu tímabili.

Ísak hefur skorað 28 mörk í fimmtán leikjum í Olís-deildinni og gefið sextán stoðsendingar. Hann hefur deilt stöðu hægri skyttu hjá Selfossi með Ragnari Jóhannssyni. Þá hefur Árni Steinn Steinþórsson einnig komið við sögu í nokkrum leikjum.

Ísak skoraði þrjú mörk þegar Selfoss tapaði fyrir KA, 27-28, í undanúrslitum Coca Cola bikarsins fyrir viku. Hann varð svo bikarmeistari með 3. flokki Selfoss deginn eftir.

Selfoss er í 7. sæti Olís-deildarinnar með átján stig. Næsti leikur Selfyssinga er gegn HK-ingum á miðvikudaginn í næstu viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×