Handbolti

Darri fer til Parísar eftir tímabilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darri Aronsson á æfingu með íslenska landsliðinu.
Darri Aronsson á æfingu með íslenska landsliðinu. vísir/vilhelm

Handboltamaðurinn Darri Aronsson hleypir heimdraganum í sumar þegar hann gengur í raðir franska liðsins Ivry. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Ivry.

Darri hefur leikið með Haukum allan sinn feril í meistaraflokki. Hann varð deildarmeistari með liðinu á síðasta tímabili og fór með því í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn. Darri er þriðji markahæsti leikmaður Hauka í Olís-deildinni með 54 mörk.

Auk Darra hefur Ivry samið við danska markvörðinn Jesper Dahl. Hann kemur frá Nordsjælland.

Darri, sem er 23 ára, lék tvo leiki með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu og skoraði eitt mark.

Ivry er langefst í frönsku B-deildinni og á góðri leið með að tryggja sér sæti í frönsku úrvalsdeildinni.

Ivry hefur átta sinnum orðið franskur meistari, síðast 2007 þegar Ragnar Óskarsson lék með Parísarliðinu, og einu sinni bikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×