Skoðun

Umburðarlynda bleyðan

Þórarinn Hjartarson skrifar

Umburðarlynda bleyðan talar gegn eigin sannfæringu í von um að verða tekin í sátt meðal leiðtoganna.

Umburðarlynda bleyðan heldur því fram að hlutirnir séu annað hvort svartir eða hvítir, jafnvel þegar hún veit að þeir eru gráir eða mislitir. Þetta gerir hún til þess að komast hjá því að horfast í augu við raunveruleikann, jafnvel sjálfa sig.

Umburðarlynda bleyðan á í þversagnakenndu sambandi við sannleikann. Þetta veit hún. Þegar afstaða umburðarlyndu bleyðunnar er gagnrýnd telur hún að þrátt fyrir sannleiksgildi gagnrýninnar sé aldrei rétti tíminn til þess að benda á þversagnir. Slíkt er vatn á myllu óvinarins og tefur gönguna til fyrirheitna landsins.

Umburðarlynda bleyðan er ekki umburðarlynd gagnvart öllum. Skoðanir sem hinir útvöldu hafa dæmt óásættanlegar eða víkja frá hinum réttláta, óvéfengjanlega málstað, skulu undantekningalaust kveðnar í kútinn. Þegar röng sjónarmið dúkka upp sýnir umburðarlynda bleyðan fram á eigið ágæti með því að benda á hvað aðrir eru ómögulegir.

Umburðarlynda bleyðan básúnar lofsöngva um hina útvöldu og biðst forláts ef hægt er að túlka orð hennar sem frávik frá hinum eina sannleik. Umburðarlynda bleyðan telur hagsmunum sínum best borgið með því að halda kyrru fyrir og vona að hinir útvöldu gangi framhjá hennar dyrum.

Umburðarlynda bleyðan veit að allir hafa gert mistök á sinni lífsleið, jafnvel hinir útvöldu. Hins vegar, til að forðast það að beina hinu vökula auga rétttrúnaðarins að sér, syngur hún lofssöngva um fyrirheitnalandið og hina óvéfengjanlegu fullkomnu leiðtoga. Með réttu slagorðunum frestar hún hinu óumflýjanlega. Því innst inni veit umburðarlynda bleyðan að einn daginn munu leiðtogarnir snúa sér að henni. Þegar sá dagur rennur upp munu allir staðlar réttvísinnar vera jafnaðir við jörðu. Þann dag verður enginn til þess að standa við bakið á umburðarlyndu bleyðunni, að undanskyldum öðrum umburðarlyndum bleyðum.

Höfundur er þáttastjórnandi hlaðvarpsins Ein PælingAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.