Körfubolti

„Viljum freista þess að vinna deildarmeistaratitilinn“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ólafur Jónas Sigurðsson.
Ólafur Jónas Sigurðsson. Vísir/Bára Dröfn

Valur hafði betur þegar liðin í þriðja og fjórða sæti Subway-deildar kvenna í körfubolta leiddu saman hesta sína að Hlíðarenda í kvöld.

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var ánægðastur með varnarleik liðsins og framlag þeirra leikmanna sem komu inn af bekknum í leiknum í kvöld.

„Að mínu mati var það sterkur og grimmur varnarleikur sem skilaði þessum sigri. Við náðum ekki okkar markmiðum hvað fráköst varðar en bættum það upp með öflugri vörn. Þá fengum við 41 stig hjá leikmönnum sem komu inn af bekknum sem er gulls ígildi. Eydís Eva setti niður mikilvæg þriggja stiga skot og Dagbjört Dögg tók síðan við keflinu,“ sagði Ólafur Jónas í samtali við Vísi.

„Þetta var hörkuleikur tveggja frábærra liða og mér fannst 10 stiga munur ekki endilega endurspegla það hvernig þessi leikur spilaðist. Við náðum hins vegar betri og lengri áhlaupum sem varð til þess að við komumst aftur á sigurbraut sem er mikilvægt nú þegar liður að úrslitakeppni.

Við viljum freista þess að vinna deildarmeistaratitilinn og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að landa honum,“ sagði þjálfarinn en eftir þennan sigur komst Valur upp að hlið Haukum í öðru til þriðja sæti deildarinnar en KFUM-félögin eru tveimur stigum á eftir Fjölni sem trónir á toppnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×