Skoðun

Ný­sköpun og öflugt at­vinnu­líf í Ár­borg

Bragi Bjarnason skrifar

„Sveitarfélagið á að vera í virku samtali við atvinnulífið, efla nýsköpun og vinna að því að fjölga atvinnutækifærum í sveitarfélaginu með markvissum hætti.”

Sveitarfélagið Árborg hefur vaxið mikið undanfarin ár og er fjöldi íbúa nú í kringum 11 þúsund. Flesta virka daga fer hluti íbúa til vinnu á höfuðborgarsvæðið eða til nágrannasveitarfélaga sem er í sjálfu sér eðlilegt upp að vissu marki. Það verður þó með auknum íbúafjölda að huga að fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra í Árborg með það að markmiði að íbúar geti haft fleiri valmöguleika um áhugaverð störf í nærsamfélaginu, stutt frá heimili og fjölskyldu.

Atvinnustefna og skýr markmið

Fyrirtækjum er í auknum mæli ýtt frá ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu og Árborg gæti verið kjörin staður til uppbyggingar fyrir mörg þeirra. Nýtt skrifstofuhótel mun gefa aukin tækifæri en samfélag með góða skóla, öflugt íþrótta- og frístundastarf, nægt landrými og góðar tengingar við helstu samgönguleiðir, ásamt inn- og útflutningshöfn í næsta nágrenni ætti að vera kjörinn staður til frekari uppbyggingar á atvinnustarfsemi. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér og vil ég koma að því að leiða sveitarfélagið í samstarfi við hagsmunaaðila að setja fram stefnu með skýr framtíðarmarkmið um hvernig atvinnuuppbyggingu við viljum sjá í sveitarfélaginu.

Tækifæri til nýsköpunar

Sveitarfélagið Árborg á að vera í virku samtali við fjölbreyttar atvinnugreinar í samfélaginu. Þannig getur sveitarfélagið verið betur í stakk búið að skapa umhverfið sem eflir og hvetur til nýsköpunar og þróunar. Hvort sem um er að ræða verslun, ferðaþjónustu eða fjölbreyttan iðnað.

Gott samstarf grunnskóla í Árborg, FSu, FabLab Selfoss, Háskólafélags Suðurlands, atvinnulífsins og tengdra aðila er mikilvægt til að efla og ala upp nýsköpunarhugsun hjá ungmennum í samfélaginu. Slíkt samstarf getur búið til rétta umhverfið og alið af sér frumkvöðla sem fengu að byrja að prófa hluti í grunnskóla, þróuðu áfram í framhaldsskóla og gerðu hugmynd að veruleika í frumkvöðlasetri háskólafélagsins. Þorum að hugsa um stóru myndina og sköpum aðstæður þar sem ný tækifæri verða til.

Viltu ræða málin frekar?

Þar sem stutt er í prófkjörið laugardaginn 19.mars nk. vil ég nýta tímann vel og reyna að hitta sem flest fyrirtæki og íbúa. Það er því velkomið að senda erindi á bragibjarna1@gmail.com og óska eftir heimsókn til að spjalla um samfélagið okkar og hvernig við getum í sameiningu gert Árborg enn betri.

Höfundur er frambjóðandi í 1.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg, www.bragibjarna.is




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×