Körfubolti

Fjölnir eitt á toppi Subway-deildar

Atli Arason skrifar
Njarðvík Fjölnir.jpeg
Vísir/Vilhelm

Fjölnir vann Njarðvík í stórleik kvöldsins í Subway-deild kvenna í Dalhúsum. Leikurinn var jafn og spennandi allan tíman eins og allar viðureignir liðanna til þessa á tímabilinu.

Njarðvík var einu stigi yfir í hálfleik, 41-42, eftir að Fjölnir vann fyrsta leikhluta 17-16. Heimakonur komu betur út úr hálfleikshléinu en Fjölnir vann þriðja leikhluta með fimm stigum, 19-14. 

Það var svo allt í járnum í lokaleikhluta og lokamínútan var æsispennandi. Þegar hálf mínúta er eftir af leiknum er Fjölnir tveimur stigum yfir og Rúnar Ingi, þjálfari Njarðvíkur tekur leikhlé. Gestirnir fá tvær tilraunir eftir sóknarfrákast Lavína De Silva en hvorki skot Aliyah Collier né Diane Diéné fer niður. Njarðvík brýtur strax og Aliyah Mazcyk setur annað víti sitt niður, Staðan 79-76. 

Helena Rafnsdóttir reynir þriggja stiga skot í lokasókn Njarðvíkur en það fer ekki niður og Iva Bosnjak klárar leikinn fyrir Fjölni af vítalínunni hinu megin. Lokatölur 80-76.

Aliyah Mazyck var stigahæsti leikmaður vallarins með 36 stig ásamt því að taka 9 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Nafna hennar Aliyah Collier hjá Njarðvík var stigahæst hjá gestunum með 35 stig, ásamt því að taka 22 fráköst og gefa 4 stoðsendingar. Trölla tvenna hjá Collier sem var framlagshæst í leiknum með 44 stig.

Fjölnir er nú eitt á toppi deildarinnar með 28 stig á meðan Njarðvík er í þriðja sæti með 26 stig. Valur á leik til góða og getur jafnað Fjölni af stigum á toppi deildarinnar ef þær vinna næsta leik sinn, sem er gegn Breiðablik næsta miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×