Skoðun

Er Degi alveg sama?

Jón Arnór Stefánsson skrifar

Síðastliðið haust hlustaði ég á viðtal við Dag B. Eggertsson þar sem hann sagði frá því þegar hann sem unglingur þrýsti á Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, að byggja íþróttahús í Árbænum. Krakkarnir í Árbænum upplifðu hverfið sem mjög vanrækt úthverfi og tóku til sinna ráða.

Þessa tilfinningu þekkja þeir sem búa í Laugardalnum. Þar er ekkert fjölnota íþróttahús til staðar fyrir þá sem stunda íþróttir með hverfisfélögunum Ármanni og Þrótti. Staðreyndin er sú að Laugardalurinn, sem er samkvæmt borginni stærsta uppbyggingarsvæðið í dag, er eina borgarhverfið þar sem íþróttahús vantar fyrir íþróttafélögin sem þar halda úti starfsemi.

Þeir sem þekkja til starfs íþróttafélaga vita hversu mikilvægu hlutverki félögin og íþróttaaðstaðan gegna í félags- og forvarnarstarfi. Það gera þau með því að búa til umgjörð fyrir hreyfingu og samveru. Hápunktur dagsins hjá mörgum krökkum er að fara í íþróttahúsið í hverfinu sínu að æfa og hitta vinina. Íþróttaviðburðirnir sem þar fara fram skapa líka stemmningu og sameina fjölskyldur og vini sem mæta til að horfa á viðburðina, en ekki síður til að hitta aðra úr hverfinu. Þetta ætti Dagur að geta vitnað um, t.d. eftir að hafa mætt á úrslitakeppnina í körfuboltanum í íþróttahúsi KR.

Iðkendur í Laugardalnum þekkja þetta hins vegar ekki úr sínu hverfi. Þar er þetta ekki í boði. Degi hefur verið boðið að koma í heimsókn til að sjá með eigin augum þá bágbornu aðstöðu sem krakkar sem æfa körfubolta hjá Ármanni búa við. Körfuknattleiksdeild félagsin er ein sú fjölmennasta í Reykjavík með rúmlega 300 iðkendur, en krakkarnir þurfa að gera sér að góðu að æfa í agnarsmáum íþróttasölum Laugarnes- og Langholtsskóla, rýmum sem eru á stærð við áhaldageymslur íþróttahúsa annarra liða. Dagur hefur ekki enn séð sér fært að mæta.

Steinar Kaldal, þjálfari hjá körfuknattleiksdeild, spurði í nýlegri blaðagrein hvort rétt væri að þær 100 milljónir sem kynntar voru í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 sem fjármagn til íþróttahúss við gervigrasvöllinn í Laugardal væru ekki örugglega fyrsta skrefið í byggingu íþróttahúss fyrir Ármann og Þrótt. Borgarfulltrúar meirihlutans hafa kosið að svara engu. Enn á ný virðist strategían vera sú að þvæla umræðu um þjóðarhöll inn í málið og forðast þannig að gefa skýr svör.

Mig langar því að spyrja aftur. Stendur til að byggja fjölnota íþróttahús fyrir íþróttafélögin í hverfinu, eða er Degi og félögum alveg sama um íþróttaiðkendur hverfisfélaga Laugardalsins?

Höfundur er íbúi í Laugardal.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×