Körfubolti

Morant skoraði 52 stig, tróð yfir tröllkarl og fékk risa hrós frá Iverson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samherjar Jas Morant fagna þessum magnaða leikmanni.
Samherjar Jas Morant fagna þessum magnaða leikmanni. getty/Justin Ford

Ja Morant setti persónulegt met þegar hann skoraði 52 stig í sigri Memphis Grizzlies á San Antonio Spurs í NBA-deildinni í nótt. Hann fékk klapp á bakið frá gamalli NBA-hetju.

Morant setti met í sögu Memphis þegar hann skoraði 46 stig í sigri á Chicago Bulls, 110-116, í fyrrinótt. Metið varð ekki gamalt því Morant sló það sjálfur með því að skora 52 stig í 118-105 sigri á San Antonio í nótt.

Tvær körfur voru öðrum eftirminnilegri hjá Morant. Fyrst þegar hann tróð yfir miðherja San Antonio, Jakob Poetl, og svo þegar hann skoraði flautukörfu úr nær ómögulegri stöðu í þann mund sem hálfleiksflautið gall.

Morant fékk hrós úr ýmsum áttum eftir leikinn í nótt, meðal annars frá sjálfum Allen Iverson. Hann birti mynd af MVP-styttunni með treyju Morant og skrifaði við hana: „Fyrr en seinna“. Iverson var valinn besti leikmaður NBA tímabilið 2000-1 og þess verður eflaust ekki langt að bíða að Morant vinni þau líka.

Morant hefur átt frábært tímabil með Memphis og átt hvað stærstan þátt í að þetta unga og efnilega lið er í 3. sæti Vesturdeildarinnar. Í vetur er Morant með 27,1 stig, 5,9 fráköst og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Giannis Antetokounmpo leiddi Milwaukee Bucks til sigurs á Charlotte Hornets, 130-106. Grikkinn skoraði 26 stig og tók sextán fráköst. Þá hitti hann úr öllum fjórtán vítaskotunum sem hann tók í leiknum.

Þá vann Miami Heat góðan sigur á Chicago Bulls, 112-93, í leik toppliðanna í Austurdeildinni. Tyler Herro og Gabe Vincent skoruðu tuttugu stig hvor fyrir Miami sem hefur unnið fjóra leiki í röð.

Úrslitin í nótt

  • Memphis 118-105 San Antonio
  • Milwaukee 130-106 Charlotte
  • Miami 112-99 Chicago
  • Cleveland 122-127 Minnesota
  • Orlando 119-103 Indiana
  • Brooklyn 97-133 Toronto
  • Oklahoma 110-131 Sacramento
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×