Handbolti

Loks töpuðu Viktor Gísli og fé­lagar í GOG | Öruggt hjá Ála­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu.
Viktor Gísli Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu. Sanjin Strukic/Getty Images

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans í GOG töpuðu sínum fyrsta deildarleik í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Liðið tapaði þá með þriggja marka mun gegn Ribe-Esbjerg, lokatölur 30-27.

Viktor Gísli spilaði ekki mikið í kvöld og átti langt í frá sinn besta leik. Hann varði aðeins eitt af þeim átta skotum sem hann fékk á sig.

Tap kvöldsins var fyrsta tap GOG í deildinni á leiktíðinni en fyrir leikinn hafði liðið leikið 21 leik án þess að bíða ósigurs. Liðið hefur því nú unnið 20 leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum leik.

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark er Álaborg vann sannfærandi sjö marka sigur á SönderjyskE, lokatölur 37-30. Þá varði Ágúst Elí Björgvinsson tvö skot af þeim fimm skotum sem hann fékk á sig er Kolding gerði jafntefli við Lemvig, lokatölur 26-26.

GOG trónir sem fyrr á toppi deildarinnar með 41 stig, fjórum stigum meira en Álaborg sem hefur leikið leik meira. Kolding er í 12. sæti með 13 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.