Handbolti

Ís­lands­mótið í efstu deild kvenna lengt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslandsmótinu í efstu deild kvenna í handbolta mun ljúka síðar en áætlað var.
Íslandsmótinu í efstu deild kvenna í handbolta mun ljúka síðar en áætlað var. Vísir/Vilhelm

Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, hefur ákveðið að lengja tímabilið í Olís-deild kvenna. Ástæðan sé fjöldi smita í vetur og þeim fjölda leikja sem hefur þurft að fresta.

Tímabilið í efstu deild karla og kvenna í handbolta hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Mikið hefur verið um frestanir vegna kórónuveirusmita og þá hefur veðrið einnig komið við sögu.

Mótanefnd HSÍ hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að best sé að lengja keppnistímabilið. Mun því nú ljúka þann 14. apríl frekar en þann 9. eins og áætlað var.

„Við erum með augu á 27. og 28. apríl sem fyrstu dögum í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri sambandsins sem og mótastjóri þess í stuttu spjalli við Handbolti.is í dag.

Þá telur Róbert Geir að úrslitakeppni í kvennaflokki verði ekki lokið fyrr en í kringum mánaðarmótin maí og júní.

Ekki gefst tækifæri til að hefja úrslitakeppni deildarinnar fyrr þar sem íslenska kvennalandsliðið mætir Svíþjóð heima og Serbíu ytra í síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppni Evrópumótsins þann 20. og 23. apríl.

„Með breytingu á mótadagskránni gefst tækifæri til að gefa landsliðinu einn aukadag fyrir erfiða undankeppni EM,“ sagði Róbert Geir í tilkynningu sem barst fjölmiðlum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×