Körfubolti

Benedikt: Sóknin lítur alltaf vel út þegar menn hitta

Smári Jökull Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson var ánægður með sína menn í Njarðvík í leiknum í kvöld
Benedikt Guðmundsson var ánægður með sína menn í Njarðvík í leiknum í kvöld Vísir/Vilhelm

„Maður er aldrei ánægður með allar 40 mínúturnar en þetta voru það margar góðar mínútur að ég verð að vera ánægður. Mér fannst við ná tökum á þeim varnarlega og héldum því ansi lengi,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn á Grindavík í Subway-deildinni í kvöld.

Leikurinn var jafn til að byrja með en í öðrum leikhluta komust Njarðvíkingar að komast skrefi á undan. Í síðari hálfleik voru þeir svo miklu betra liðið og lönduðu öruggum sigri.

„Við náðum að ráða við EC Matthews, hann var auðvitað geggjaður í fyrri hálfleik. Við náðum að hægja töluvert á honum í seinni hálfleik.“

Heimamenn voru að fá framlag frá mörgum leikmönnum, sex leikmenn skoruðu yfir 10 stig á meðan þrír leikmenn Grindvíkinga skoruðu 62 af 76 stigum þeirra.

„Breiddin er fín og við vorum að hreyfa boltann vel. Við ráðumst á Ivan í vagg og veltu vörninni og þeir voru í vandræðum með það, við reyndum að mjólka það eins og við gátum.“

„Við náðum þessari svikamyllu að ná í sniðskot eða opið skot fyrir utan. Menn voru að hitta vel og það hjálpar. Sóknin lítur alltaf vel út þegar menn hitta vel.“

Sigurinn er sá níundi í síðustu tíu leikjum hjá Njarðvík. Benedikt vildi lítið segja um það hvort Njarðvíkingarnir væru liðið fyrir aðra að vinna núna.

„Við látum einhverja aðra tala um það og einbeitum okkur að okkur sjálfum. Það getur svo mikið gerst. Við erum hugsanlega með smá forskot á þessi lið sem hafa verið að gera breytingar, við erum með sama liðið á meðan önnur lið eru að aðlaga nýja menn inn.“

„Þið verðið að meta þetta þið sem eruð að fjalla um þetta flotta sport,“ sagði Benedikt að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×