Körfubolti

Fimmtíu stiga sýning hjá Antetokounmpo

Sindri Sverrisson skrifar
Giannis Antetokounmpo keyrir að körfu Indiana Pacers en Tyrese Haliburton reynir að verjast.
Giannis Antetokounmpo keyrir að körfu Indiana Pacers en Tyrese Haliburton reynir að verjast. AP/Aaron Gash

Meistarar Milwaukee Bucks áttu ekki í vandræðum með að leggja Indiana Pacers að velli, 128-119, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, þökk sé Grikkjanum Giannis Antetokounmpo.

Antetokounmpo átti sinn stigahæsta leik í vetur en hann skoraði 50 stig og var aðeins tveimur stigum frá metinu sínu. Þá tók hann 14 fráköst.

Antetokounmpo missti af tapleik Milwaukee gegn Portland Trail Blazers á mánudaginn vegna eymsla í vinstri ökkla en var á miklu flugi í nótt og skoraði 12 stig strax í fyrsta leikhluta, þar á meðal tvær frábærar troðslur og þriggja stiga körfu.

Þetta var fjórði 50 stiga leikur Antetokounmpo á ferlinum og sá fyrsti síðan að Milwaukee tryggði sér NBA-meistaratitilinn í fyrra.

Milwaukee er nú með 36 sigra og 23 töp í 3. sæti austurdeildar, á eftir Miami Heat og Chicago Bulls sem eru með 37 sigra og 21 tap. Miami tapaði 107-99 fyrir Dallas Mavericks í nótt.

Liðin sem léku til úrslita í vesturdeildinni í fyrra mættust einnig í nótt, þar sem Phoenix Suns unnu LA Clippers 103-96. Þetta var sjötti sigur Phoenix í röð og sautjándi sigurinn í síðustu átján leikjum, enda er liðið með gott forskot á toppi vesturdeildarinnar og núna 47 sigra en tíu töp.

Devin Booker var stigahæstur Phoenix með 26 stig og Chris Paul skoraði 17 stig og átti 14 stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

  • Atlanta 124-116 Cleveland
  • Miami 99-107 Dallas
  • Philadelphia 87-135 Boston
  • Milwaukee 128-119 Indiana
  • Minnesota 126-120 Charlotte
  • New Orleans 109-121 Memphis
  • Phoenix 103-96 LA Clippers

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×