Körfubolti

Góðar fréttir fyrir Grindvíkinga: Mæta einu af efstu liðunum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Valeiras Creus fagnar einni af körfum Grindvíkinga í siðasta leik.
Javier Valeiras Creus fagnar einni af körfum Grindvíkinga í siðasta leik. Vísir/Hulda Margrét

Grindvíkingar eru komnir niður í sjötta sæti Subway-deildar karla í körfubolta og eru á hraðri niðurleið eftir einstaklega slakt gengi á móti neðstu liðum deildarinnar að undanförnu.

Það eru því kannski mjög góðar fréttir fyrir Grindvíkinga að þeir séu að fara að mæta einu af efstu liðunum í kvöld.

Valur, liðið í fjórða sæti, kemur þá til Grindavíkur í stórleik kvöldsins í Subway-deildinni en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport frá klukkan 18.05.

Grindavík tapaði á móti Breiðablik í síðasta leik og með þeim sigri komust Blikar upp í sjöunda sætið.

Þeir voru aftur á móti fyrir utan úrslitakeppnina fyrir leikinn og þetta var því fimmta tap Grindavíkur í röð á móti liði í einu af fjórum neðstu sætunum.

Grindvíkingar hafa aftur á móti unnið fimm af sex síðustu leikjum sínum á móti liðum í úrslitakeppnissæti þar á meðal tvö efstu liðin, Þór úr Þorlákshöfn og Njarðvík.

Grindvíkingar eru líka á heimavelli þar sem þeir hafa unnið sex af sjö leikjum sínum í vetur.

  • Síðustu sex leikir Grindavíkur á móti liðum í úrslitakeppnissæti fyrir leikinn:
  • 3. febrúar: 8 stiga sigur á Tindastól (101-93)
  • 27. desember: 4 stiga sigur á Þór Þorl. (95-91)
  • 17. desember: 14 stiga tap fyrir Keflavík (76-90)
  • 4. desember: 4 stiga sigur á Stjörnunni (92-88)
  • 28. október: 9 stiga sigur á Tindastól (86-77)
  • 25. október: 5 stiga sigur á Njarðvík (87-82)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×