Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - FH 26-29 | Seiglusigur hjá FH

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
visir-img
vísir/hulda margrét

Leikurinn var virkilega jafn til að byrja með en Víkingur var skrefi á undan þar til á 17. mínútu þegar þeir komust tveimur mörkum yfir. Mikill hraði var í leiknum og var augljóst að Víkingur kom FH-ingum í opna skjöldu. Um miðbik fyrri hálfleik tókst Víkingi að komast tveimur mörkum yfir og var FH í basli með eltingarleikinn. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 18-14, Víkingi í vil.

Í síðari hálfleik tók það FH ekki nema tíu mínútur að jafna leikinn og var þar með búið að koma sér í virkilega góða stöðu. Sterk vörn FH í síðari hálfleik gerði sóknarleik Víkings erfitt fyrir en þeir voru í töluverðum vandræðum með að skapa sér færi. Hvorugt lið hafði þó gefist upp og var hart barist fyrir þeim tveimur stigum sem voru í húfi.

Mikill hiti skapaðist í síðari hálfleik en á þessum þrjátíu mínútum gáfu dómararnir sex brottvísanir. Einnig fengu þjálfarar beggja liða að lýta gula spjaldið fyrir mótmæli.

Víkingi tókst að minnka stöðuna niður í eitt mark þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka en FH gáfu svo í og héldu heimamönnunum í ágætri fjarlægð þar til flautað var til leiksloka. Lokatölur í Víkinni 26-29, toppliði FH í vil.

Afhverju vann FH?

Stigin tvö hefðu getað endað hjá báðum liðum. Þrátt fyrir það þá tókst FH að koma með gott áhlaup í síðari hálfleik sem varð til þess að þeir sigruðu. FH skipti yfir í 5-1 vörn í síðari hálfleik og spiluðu hana virkilega framarlega sem hjálpaði þeim gríðarlega að halda sóknarleik Víkings í skefjum. Þeir héldu vel út leikinn og í raun hægðist aldrei á þeim allar sextíu mínúturnar.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði FH átti Jakob Martin Ásgeirsson virkilega góðan leik en hann var markahæstur í sínu liði með sjö mörk. Næst markahæstur var Ásbjörn Friðriksson sem lék einnig vel í kvöld. Phil Döhler var virkilega flottur í marki FH í kvöld en hann var með níu varða bolta sem skilaði honum 41% markvörslu.

Jóhannes Berg Andrason var frábær í liði Víkings í kvöld en hann var markahæstur í leiknum með níu mörk og tvö sköpuð færi. Hann átti einnig flottan varnaleik í kvöld. Sverrir Andrésson átti flottan leik í marki Víkings en hann var með ellefu varða bolta eða 39% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Það var ekki mikið sem gekk áberandi illa í kvöld. Í síðari hálfleik átti Víkingur erfitt með að finna glufur í vörn FH og fóru þeir oft illa með færin sín. Einnig var nokkuð mikið um tapaða bolta í leiknum. Mikill æsingur var í leiknum og lentu liðin of oft í því að vera manni færri.

Hvað er næst?

Nokkuð langt er í næstu leiki hjá báðum liðum. Víkingur á næst leik gegn Fram á útivelli þann 26. febrúar. FH á næst leik þann 27. febrúar en þá fá þeir ÍBV í heimsókn Í Kaplakrikann.

Sigursteinn Arndal

Sigursteinn Arndal: leikurinn í dag sýndi okkur það, að það þarf alltaf að leggja ákveðna vinnu á sig.

„Ég er bara ánægður með stigin tvö. Það er víst ekki hægt að fá fleiri stig en það þannig við erum ánægðir.“ Hafði Sigursteinn að segja eftir leikinn.

Víkingur var með yfirhöndina stærstan hluta fyrri hálfleiks.

„Víkingarnir voru bara virkilega agressívir og flottir í fyrri hálfleik og við vorum ekki tilbúnir í þá vinnu sem þarf til þess að vinna handboltaleik. En við tókum okkur saman í seinni hálfleik og lögðum mikið á okkur. Það uppskar þennan sigur.“

Jón GunnlaugurVísir/Hulda Margrét

Jón Gunnlaugur Viggósson: svona verðum við að mæta í alla leiki.

Jón Gunnlaugur var virkilega sáttur með frammistöðu sinna stráka þrátt fyrir tap gegn FH í Víkinni fyrr í kvöld. Víkingur var með yfirhöndina allan fyrri hálfleik en FH-ingum tókst að sækja sigur úr bítum. Lokatölur í kvöld 26-29.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn okkar vera í raun bara 100%. Við hefðum auðveldlega getað verið 19-13 yfir í hálfleik. Vörnin var geggjuð og markvarslan var geggjuð. Sverrir var frábær í markinu og strákarnir skiluðu sínu. Við unnum líka fyrir þessu. Við þurfum að átta okkur á því að leikurinn núna og leikurinn á móti Val í síðustu umferð var bara svart og hvítt. Eða rautt og svart, hvernig sem við Víkingar viljum kalla það.“ Sagði Jón Gunnlaugur um fyrri hálfleikinn hjá sínum mönnum.

„Svona verðum við að mæta í alla leiki. Strákarnir verða að fara að átta sig á því að við fáum ekki það sem við eigum skilið. Við fáum það sem við sækjum. Og við þurfum bara að sækja þetta.“

„Ég er auðvitað mjög svekktur yfir því hvernig þetta endaði. Þetta var geggjaður leikur. FH fara þarna í 5-1 vörn sem hristir okkur svolítið upp og við vorum svolítið lengi að ná að slútta vel á markið. Það munaði ekki miklu en heilt yfir er ég svekktur að taka ekki stig.“

„Þetta er rosalega fljótt að gerast. Einn sigur setur pressu. HK gerðu það í gær gegn Gróttu með geggjuðum sigri. Það er rosalega stutt í þetta og við þurfum að gíra okkur upp í nákvæmlega svona eins og við gerðum hérna í fyrri hálfleik fyrir næstu leiki. Við verðum að mæta þannig á æfingar og mæta þannig í leiki. Vera vel undirbúnir og fara með það að sofa á koddana hvernig við getum náð sigri. Þetta er ekkert flóknara en það.“ Hafði Jón Gunnlaugur að segja að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira