Skoðun

Ég vil ávinna mér virðingu

Ólöf Helga Adolfsdóttir skrifar

Fyrir nokkrum mánuðum var mér sagt upp sem hlaðmanni við Reykjavíkurflugvöll fyrir að standa í réttindabaráttu sem trúnaðarmaður. Ég neitaði að hlýða yfirvaldinu og hef farið með málið alla leið í félagsdóm. Ég lagði allt í veðið og vil gera það áfram sem næsti formaður Eflingar.

Þegar að mér bauðst að verða varaformaður félagsins var það því formaður og framkvæmdastjóri höfðu sagt af sér og yfirgefið skipið sem þau höfðu sjálf siglt í ólgusjó. Eftir að þau yfirgáfu skipið tók við stormasamur tími þar sem allir lögðust á eitt til þess að sjá til þess að skrifstofan yrði ekki óstarfhæf svo stéttarfélagið geti enn sinnt kjarnaþjónustu sinni og liðsinnt félagsfólki okkar.

Með samstöðu tókst það, en það reynir nú þegar á samstöðu verkalýðsins til að bregðast við þeim grafalvarlega vanda sem steðjar að íslensku samfélagi eftir heimsfaraldurinn. Styrkur verkalýðshreyfingarinnar er samstaða gagnvart sameiginlegum stórum hagsmunamálum á borð við húsnæðismál, vaxtamál og skattamál. Í Eflingu eru 30.000 félagar sem geta hreyft samfélagið í rétta átt með samstilltu átaki og unnið gegn ójöfnuði og sundrungu í samfélaginu. Við náum hins vegar engu fram með innbyrðis átökum þar sem við setjum persónur ofar félagsmönnum. Starf Eflingar er of mikilvægt til þess. Við erum á leið í erfiða kjarasamninga og nú er ekki tímapunkturinn til að veikja félagið okkar með átökum og að hreinsa út okkar góða og reynslumikla fólk sem starfar fyrir félagið.

Nú hefur fyrrum formaður boðað endurkomu sína sem mun einkennast af meiri hörku og sterkari stjórnarháttum. Hún mun heimta virðingu og hlýðni. Eflingarlistinn varð til því að fyrri stjórnendur brugðust skyldum sínum, og uppbygging hans er mótsvar við því sem virkaði ekki hjá fyrirverum okkar. Listinn var lýðræðislega samstilltur, en fjölbreytni hans endurspeglar félagsmenn okkar sem koma úr ýmsum áttum. Sem formannsefni flokksins heimta ég ekki virðingu, heldur vil ég ávinna mér hana með baráttu minni.

Ég býð mig fram til þess að standa vörð um hagsmuni félagsmanna okkar, til að styðja við þá sem veikast standa og til að efna til enn sterkari samstöðu verkafólk landsins með Eflingu fremst í fylkingu. Ég vil aftur leggja allt í veðið og þarf þinn stuðning við Eflingarlistann til þess.

Höfundur er varaformaður Eflingar og í framboði sem formaður A-lista Eflingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×