Viktor Gísli, sem valinn var besti markvörður EM, telur að Ísland geti unnið til verðlauna á stórmóti á allra næstu árum:
„Já, ég held það. Við erum bara rétt að byrja. Við erum allir ungir og þetta hefur verið í spilunum síðustu ár. Alltaf verið að tala um hve margir ungir og efnilegir séu að koma upp; ´96-landsliðið, 00‘-landsliðið… ég held að framtíðin sé mjög björt. Þetta er smábrot af því sem mun koma,“ segir Viktor í viðtali við Rikka G.
Viktor sló svo sannarlega í gegn á EM og sá til þess að fjarvera Björgvins Páls Gústavssonar kæmi ekki að sök. Hann hló þó aðspurður hvort að hann væri „nýi kóngurinn í bænum“:
„Við erum bara teymi. Ágúst Elí [Björgvinsson] er líka frábær markvörður. Þetta er bara samvinna. Við skoðum andstæðingana mikið saman. Bjöggi hjálpar mér mikið. Gústi hjálpar mér líka mikið. Þetta er góð samvinna.“
Viktor Gísli leikur í dag með GOG og vonast til þess að frammistaðan á EM færi honum stærra hlutverk þar en áður.
Í sumar fer Viktor hins vegar til Nantes í Frakklandi, eftir að hafa átt stórkostlegan leik í stórsigri Íslands á Frökkum á EM:
„Þetta skemmir ekki fyrir manni þegar maður mætir til Frakklands í sumar. Þetta var góður leikur til að loka rammanum í,“ segir Viktor, spenntur fyrir því að fara til Frakklands:
„Vonandi er ég að fara að spila Meistaradeildarhandbolta í fyrsta sinn af einhverri alvöru. Franska deildin er hörkudeild sem verið hefur á uppleið síðustu ár, og ég hlakka mjög til að breyta aðeins til og er bara spenntur fyrir þessu.“