„Ég er bara svekktur að hafa tapað þessum leik. Mér fannst við ekki koma nægilega vel stemmdir inn í leikinn, vorum ekki klárir og vorum í vandræðum með þá sóknarlega. Vorum lengi að stilla okkur af en komumst svo inn í leikinn, svekkjandi að hafa ekki getað klárað dæmið. Þetta hefði getað dottið báðum megin en svekkjandi að það datt ekki með okkur í dag,“ sagði Bjarki Már í viðtali beint eftir leik.
„Finnst við bara standa jafnfætis þessum liðum. Má ekki gleyma því sem við höfum gengið í gegnum á þessum móti, án þess þó að við séum að fara skýla okkur á bakvið það. Þetta var fáránlega erfitt, get ekki verið annað en stoltur af liðinu og horft björtum augum á framtíðina. Mér finnst þessi lið ekkert endilega betri en við stöðu fyrir stöðu. Þannig ég er bjartsýnn en mjög svekktur að hafa ekki unnið í dag,“ sagði Bjarki Már aðspurður hvernig Ísland stæði gagnvart liðum á borð við Danmörku, Svíþjóð og fleiri.
„Heilsan er bara mjög góð, ég nenni eiginlega ekki að tala um þetta. Ekki búinn að hugsa um annað í viku. Það er ekkert að mér,“ sagði Bjarki Már að endingu en hann var einn fjölmargra íslenskra leikmanna sem greindust með Covid-19 á mótinu.