Handbolti

Miklu erfiðara að horfa á soninn en eiginmanninn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gísli Þorgeir er sonur Þorgerðar og Kristjáns og leikur með íslenska landsliðinu í handbolta. 
Gísli Þorgeir er sonur Þorgerðar og Kristjáns og leikur með íslenska landsliðinu í handbolta. 

Í gærkvöldi fór í loftið nýr þáttur á Stöð 2 og Stöð 2 sport sem ber heitið Þeir tveir og er í umsjón Gumma Ben og Hjálmars Arnar Jóhannssonar. Um er að ræða skemmtiþátt þar sem fjallað verður um íþróttir og rætt um þær á skemmtilegum nótum.

Í gær mættu þau Dagur Sigurðsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og ræddu um EM í handbolta en Ísland leikur sinn síðasta leik í keppninni í dag þegar það keppir um 5. sætið við Norðmenn klukkan 14:30.

Þorgerður Katrín mættu á fjóra fyrstu leiki íslenska liðsins í Búdapest enda er sonur hennar Gísli Þorgeir Kristjánsson í liðinu. Gísli fékk Covid eftir lokaleikinn í riðlinum gegn Ungverjum og hefur verið í einangrun síðan þá. Eins og alþjóð veit er eiginmaður Þorgerðar margreyndur landsliðsmaður í handknattleik, Kristján Arason. Í gær var hún spurð hvort væri erfiðara að horfa á son sinn í landsleik eða eiginmanninn.

„Það er öðruvísi að horfa á barnið sitt heldur en manninn. Maður er minna áhyggjulaus að horfa á manninn,“ segir Þorgerður Katrín og heldur áfram.

„Gísli er búinn að vera meiðast og þegar það er verið að taka í hann þá verður maður stressuð. Hann meiddi sig aldrei í yngri flokkunum og hann hefur aldrei meiðst fyrr en út í Eyjum, og ég ætla ekki að fara út í það. Mér finnst hann sýna mjög mikinn karakter að koma alltaf aftur og aftur eftir meiðsli.“

„Hann er búinn að sýna stórkostlegan karakter. Það er ekkert verra í heiminum en að koma út í atvinnumennsku í fyrsta sinn og meiðast strax. Þér finnst þú vera bregðast öllum sem voru að kaupa þig og þetta er ein erfiðasta staða sem þú getur farið í sem ungur leikmaður. Þetta er ótrúlega erfið staða og að vinna sig út úr því er hörkumál,“ segir Dagur Sigurðsson í þættinum í gær en hér að neðan má sjá brot úr fyrsta þættinum af Þeim tveimur.

Klippa: Miklu erfiðara að horfa á soninn en eiginmanninn

Þeir tveir er sýndur á fimmtudagskvöldum á Stöð 2 og Stöð 2 Sport. Þáttinn má einnig finna á Stöð 2+. Upplýsingar um áskriftarleiðir Stöðvar 2 má finna hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.