Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Haukar 72-80| Haukar sýndu klærnar í fjórða leikhluta

Andri Már Eggertsson skrifar
visir-img
vísir/vilhelm

Það var jafnræði með liðunum fyrstu þrjátíu mínúturnar en Haukar sýndu klærnar í fjórða leikhluta sem skilaði sér í átta stiga sigri 72-80. 

Fyrstu tíu mínútur leiksins áttu liðin sitt hvort áhlaupið. Haukar byrjuðu leikinn betur. Vörn Hauka var þétt og tókst Keflavík ekki að skora í opnum leik fyrr en eftir fjóra og hálfa mínútu. Haukar voru þá tíu stigum yfir 3-13.

Heimakonur komust síðan betur inn í leikinn og náðu að finna svör við vörn Hauka ásamt því að spila betri vörn. Keflavík gerði tólf stig gegn aðeins þremur stigum Hauka og þá tók Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, leikhlé. Eftir 1. leikhluta var staðan jöfn 18-18.

Það var jafnræði með liðunum í byrjun annars leikhluta en þegar líða tók á fyrri hálfleik náðu gestirnir frá Hafnarfirði að gera tíu stig í röð. Vörn Hauka var hreyfanleg sem skilaði sér í auðveldum körfum á hinum enda vallarins.

Haukar voru þremur stigum yfir í hálfleik 37-40.

Það gekk allt upp hjá Keflavík í byrjun síðari hálfleiks. Keflavík gerði tíu stig í röð á tæplega þremur mínútum. Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, tók þá leikhlé.

Í leikhléi Bjarna heyrðist í útsendingu Rúv frá leik Danmerkur og Frakklands í hátalarakerfinu um stutta stund. Íslenska handboltalandsliðið er svo sannarlega að sameina þjóðina þegar Keflvíkingar eru farnir að fylgjast með stórmóti í handbolta.

Gestirnir frá Hafnarfirði sýndu úr hverju þær eru gerðar í 4. leikhluta þar sem þær fóru illa með Keflavík á öllum sviðum leiksins. Þegar átta mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta voru gestirnir tólf stigum yfir og úrslit leiksins ráðin. 

Haukar fögnuðu á endanum átta stiga sigri 72-80. 

Af hverju unnu Haukar?

Leikurinn var í járnum í þrjá leikhluta en það var aðeins eitt lið á vellinum í fjórða leikhluta. Gestirnir frá Hafnarfirði skoruðu 26 stig ásamt því að spila frábæran varnarleik. 

Eftir að hafa tapað 14 boltum í fyrri hálfleik töpuðu Haukar aðeins einum bolta í seinni hálfleik. 

Hverjar stóðu upp úr?

Keira Breeanne Robinson fór á kostum í kvöld. Hún var aðeins einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. Keira skoraði 24 stig, tók 15 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. 

Lovísa Björt Henningsdóttir átti einnig stórleik fyrir Hauka. Lovísa skoraði 19 stig.

Hvað gekk illa?

Hvorki Tunde Kilin né Daniela Wallen Morillo tókst að skora í seinni hálfleik og er afar erfitt fyrir Keflavík að vinna leik þegar þær skila ekki framlagi í nánast tuttugu mínútur.

Haukar fóru illa með Keflavík undir körfunni. Gestirnir tóku 12 fráköstum meira en Keflavík.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur í Ólafssal á sunnudaginn klukkan 18:00.

Katla Rún: Fórum að hengja haus í fjórða leikhluta

Katla Rún Garðarsdóttir var svekkt eftir leikVísir/Bára

Katla Rún Garðarsdóttir, fyrirliði Keflavíkur, var afar svekkt með tap kvöldsins.

„Haukar fengu mikið af opnum skotum sem þær hittu úr. Við misstum hausinn í seinni hálfleik. Allt í einu voru Haukar tíu stigum yfir og við fórum að velta okkur of mikið upp úr því,“ sagði Katla Rún Garðarsdóttir eftir leik.

Eftir þrjá leikhluta var staðan jöfn og var Katla Rún ánægð með baráttuna í liðinu fyrstu þrjá leikhlutana.

„Ég var ánægð með barráttuna, við lentum undir snemma leiks en gáfumst ekki upp sem er jákvætt því við höfum oft gefið mikið eftir þegar við lendum undir. Baráttan var góð í þrjátíu mínútur en síðan vantaði karakter til að klára leikinn.“

„Mér fannst við hengja haus þegar þær settu fyrsta þristinn og svo kom annar þristur þá opnaðist vörnin okkar,“ sagði Katla Rún svekkt að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira