Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Þór Ak. 97-62 | Njarðvíkingar fóru illa með botnliðið

Atli Arason skrifar
visir-img
vísir/vilhelm

Njarðvík vann afar sannfærandi 35 stiga sigur er liðið fékk botnlið Þórs frá Akureyri í heimsókn í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 97-62.

Þór gerir fyrstu stig leiksins, sem var í eina skiptið sem þeir náðu í forystu í kvöld því heimamenn taka yfir í kjölfarið og bæta hægt og rólega í forskot sitt eftir því sem á líður fyrsta leikhluta en munurinn var þar mest 9 stig, alveg undir lok leikhlutans með þremur stigum frá Mario Matasovic. Njarðvík vann fyrsta leikhluta 26-17.

Gestirnir koma inn í annan leikhluta af meiri kraft og sýna mikinn baráttuvilja. Þór nær í þrígang að minnka muninn niður í fimm stig og ná minnst að minnka muninn niður í 3 stig með þrist frá Ragnari Ágústssyni. Veigar Páll fær þó tvær tilraunir til að auka forskot Njarðvíkur aftur undir lok leikhlutans eftir að hann fær nánast óvaldaður að taka eigið frákast í síðustu sókn Njarðvíkur í fyrri hálfleik og kemur muninum upp í 5 stig fyrir hálfleikinn, 43-38. Gestirnir unnu annan leikhluta 17-21.

Njarðvíkingar koma betur gíraðir inn í síðari hálfleik og bæta stakt og stöðugt í forskot sitt sem var skyndilega komið upp í 11 stig þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Þá virtist vera eins og leiknum væri lokið en gestirnir frá Akureyri fóru þá að hengja haus og Njarðvík nýtti sér það. Basile kemur forskoti Njarðvíkur mest upp í 18 stig í þriðja leikhluta þegar mínúta var eftir af fjórðungnum, sem heimamenn vinna 27-18. Staðan fyrir lokaleikhlutan var því 70-56.

Það var eiginlega bara eitt lið á leikvellinum í síðasta leikhluta. Gestunum gekk afar illa að hitta ofan í körfuna og Njarðvík keyrði yfir Þór. Heimamenn gátu þá hvílt byrjunarliðið sitt og ungu strákarnir fengu að spreyta sig og gerðu vel. Allt lið Njarðvíkur komst á stigatöfluna og þeir grænklæddu gerðu síðustu 16 stig leiksins sem varð til þess að þeir unnu leikinn afar sannfærandi, 97-62.

Af hverju vann Njarðvík?

Gestirnir gerðu vel í fyrri hálfleik en svo hrundi allt hjá þeim í síðari hálfleik sem varð til þess að Njarðvík endaði ofar á öllum þáttum tölfræðinnar. 22 tapaðir boltar hjá Þór er allt of mikið, sama gegn hvaða liði það er.

Hverjir stóðu upp úr?

Richotti var óviðráðanlegur hjá Njarðvík, 23 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Besti maður vallarins með 27 framlagspunkta.

Atle Bouna Ndiaye dróg vagninn hjá Þór lengst af með 17 stig og 5 fráköst.

Hvað gerist næst?

Njarðvík á leik gegn Val þann 28. janúar. Degi fyrr fær Þór Akureyri lið Vestra í heimsókn, í mikilvægasta leik tímabilsins fyrir Akureyringa.

„Ágætis fyrri hálfleikur en hræðilegur seinni hálfleikur“

Bjarki Ármann Oddsson

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, var ósáttur við síðari hálfleik sinna manna í kvöld.

„Ágætis fyrri hálfleikur þar sem við erum að framkvæma leikplanið okkar vel, eitthvað sem við gerðum ekki eins vel í síðari hálfleik. Við vorum að skipta mikið á bolta hindrunum og gleymdum okkur allt of oft. Richotti, Haukur og Logi geta bara labbað inn í auðveld og þægileg skot og það gengur ekki,“ sagði Bjarki í viðtali við Vísi eftir leik.

Gestirnir náðu ekki að framkvæmda leikplanið sem þeir lögðu upp með í síðari háfleik nógu vel að mati Bjarka.

„Við vorum með ákveðið 'mismatch' hinu megin sem við ætluðum að nýta okkur en tókst ekki alveg að gera. Við vorum svolítið að fara út úr því sem við lögðum upp með inn í klefa í hálfleik. Ágætis fyrri hálfleikur en hræðilegur seinni hálfleikur“

„Að öðru leyti er ég nokkuð sáttur hvernig þetta leit út hjá okkur framan af. Þegar munurinn var orðinn of mikill þá fóru leikmenn að hengja haus og svekkja okkur á einhverju allt öðru.“

Bjarki kallaði eftir því að sýnir menn gefist ekki upp þegar það blæs á móti.

„Það er rosalega mikilvægt að við höldum haus í gegnum allar 40 mínúturnar. Það kristallaðist í lokin þegar hausinn var algjörlega farinn, ég veit ekki hvort við skoruðum körfu seinustu 7-8 mínúturnar af leiknum,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs.

„Lokatölur gefa ekki rétta mynd af leiknum“

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur,Vísir/Hulda Margrét

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var sáttur við sigurinn sem hann telur sína menn hafa þurft að hafa fyrir, þrátt fyrir 35 stiga sigur.

„Ég er ánægður með að vinna leikinn. Ég held að lokatölur gefa ekki rétta mynd af leiknum því við þurftum að hafa fyrir hlutunum, að losa okkur við þá. Ég er ánægður með seinni hálfleikinn þar sem mér fannst þetta vera töluvert betra hjá okkur. Þá vorum við þolinmóðir í sóknarleiknum og hættum að taka alltaf bara fyrsta opna skotið og vorum að sækja meira á hringinn,“ sagði Benedikt í viðtali við Vísi eftir leik.

„Við vorum ekkert sáttir með okkur í fyrri hálfleik, burt séð frá því hvort við vorum yfir eða ekki. Við þurftum bara að framkvæma það sem við ætluðum að gera betur og mér fannst það takast vel í seinni hálfleik. Ég er líka ánægður með liðs framlag þar sem allir leikmenn skoruðu stig og komu með eitthvað þegar þeir voru inn á.“

Njarðvík er nú búið að styrkja stöðu sína í öðru sæti deildarinnar með 18 stig, tveimur stigum á eftir Keflavík en næsti leikur liðsins er á Hlíðarenda gegn Val.

„Það er fullt af hörku leikum fram undan. Við viljum vera áfram á uppleið og ég tel okkur vera á uppleið. Við verðum að vera betri eftir því sem líður á tímabilið. Það er að koma febrúar og það er stuttur mánuður. Það fer að styttast í vorið og við höldum bara áfram að vinna í okkar leik,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira