„Ungverjaland hefur verið svona okkar Detroit Pistons í gegnum tíðina. Þetta er búið að vera ógeðslegt á móti þeim og við erum búnir að tapa á móti þeim ljótum leikjum,“ sagði Björgvin Páll í leikslok.
„En að svara svona fyrir framan 20 þúsund manns. Að sýna svona hreðjar og svona töffaraskap er ekkert eðlilega töff. Bara hvernig við „deliver-um“ í þessum leik er ekki eins auðvelt og það sýnist.“
Björgvin varði víti frá ungverska liðinu á ögurstundu þar sem látið var vaða af fyrsta tempói. Hann segist ekki hafa búist við því og viðurkennir að hann muni í raun lítið eftir þessari mikilvægu stund í leiknum.
„Nei. Ég eiginlega man ekki eftir þessu víti. Ég man bara að ég hugsaði að ég væri meiri töffari en hann og hann myndi bara skjóta í mig.“
„Gústi (Ágúst Jóhannsson) sagði við mig á vídjófundi fyrir leik, hann er núna markmannsþjálfarinn hjá okkur, að það þyrfti bara eitt víti og það kom á góðum tímapunkti.“
Ísland er nú á leið í milliriðil með tvö stig, en þetta er í fyrsta skipti sem liðið vinnur alla leiki sína í riðlakeppni á Evrópumóti. Björgvin segir að leiðin hafi verið erfið og að liðið hafi þurft að aðlagast ýmsum mismunandi aðstæðum.
„Það er líka bara hvernig við gerum þetta. Við lendum á fullt af veggjum, allskonar brasi, en við erum bara ógeðslega góðir sóknarlega allt mótið.“
„Varnarlega mætum við þrem mjög ólíkum liðum. Mætum Portúgal sem er eitt besta lið í heiminum í sjö á sex, mætum svo hraðasta liði í heiminum í dag í Hollandi og fáum svo þriðju tegundina í dag með durga á línunni. Við náum að breyta um vörn í miðjum leik og bara hrós á strákana fyrir að hafa náð því og náð að stilla sig inn á þetta. Það sýnir bara rosalegan styrkleika og hvað við erum góðir að bregðast við aðstæðum.“
„Það að vinna þrjá leiki í riðlinum segir bara alla söguna held ég,“ sagði sigurreifur Björgvin Páll Gústavsson að lokum.