Handbolti

Verður Covid-hátíð í partýtjaldinu?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hér má sjá tjaldið góða þar sem stuðið verður í dag.
Hér má sjá tjaldið góða þar sem stuðið verður í dag. vísir/hbg

Það verður seint sagt að Ungverjar séu að kafna úr stressi vegna Covid 19. Það sést best á því að hvert sæti er til sölu í hinni glæsilegu MVM Dome í Búdapest.

Það verða því yfir 20 þúsund manns í höllinni. Sömu sögu er ekki að segja af leikjum mótsins í Slóvakíu þar sem aðeins má selja 25 prósent af þeim miðum sem alla jafna eru í boði.

Það verður ekki bara þétt setið í höllinni því fyrir utan hana er búið að setja upp glæsilegt „Fan Zone“ þar sem áhorfendur geta gert sér glaðan dag fyrir leik.

Þar er búið að reisa tjald sem 2.000 manns eiga að komast fyrir í. Samkvæmt útgefnum reglum þarf að framvísa PCR-prófi sem er ekki eldra en 72 tímar til að komast inn eða vera með ónæmisvottorð. Aftur á móti hafa margir fengið þá ábendingar að bólusetningarvottorð dugi til að fá aðgengi.

Hvað svo sem verður kemur í ljós síðar en eðlilega hafa einhverjir áhyggjur af því að veiran fái að leika lausum hala í tjaldinu. Ekki Ungverjar þó sem halda áfram með daglegt líf og einbeita sér að handboltaveislunni.


Tengdar fréttir

Utan vallar: Komið að uppskerudegi

Það er janúar og íslenska karlalandsliðið í handbolta er að hefja leik á stórmóti. Eins og öll ár á þessari öld nema eitt.

Aron: Ætlum að stimpla okkur almennilega inn

„Ég er í toppstandi,“ segir Aron Pálmarsson sem missti af síðasta stórmóti vegna meiðsli. „Mér finnst eins og það séu tíu ár síðan ég var síðast með.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.